Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 10:37:14 (7559)

2004-05-04 10:37:14# 130. lþ. 109.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[10:37]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég hefði viljað fá að heyra sterkari rök fyrir því að þetta mál gangi til allshn. Að uppistöðu til heyrir efni þess undir menntmn., snýst um breytingu á útvarpslögum, og það litla sem ekki heyrir beint undir menntmn. varðar efh.- og viðskn. Frv. er tveggja lína grein sem varðar örlítið innskot í samkeppnislögin. Eina tenging þessa þingmáls við allshn. er þá sú staðreynd að hæstv. forsrh. flytur það sem bandorm en það er ekki þar með sagt að málið þurfi að fara í þá nefnd sem venjulega tekur við málum forsrh. Þess eru fjölmörg dæmi að bandormar eru sendir til þeirrar nefndar sem málið heyrir undir að efnislegri uppistöðu til. Ég minnist þess t.d. að forsætisráðherrar hafa flutt bandorma um efnahagsmál sem engum hefur dottið í hug að senda til allshn. heldur hafa þeir þá oftast verið sendir til efh.- og viðskn. vegna þess að málið átti að uppstöðu til þar heima.

Ég teldi langeðlilegustu málsmeðferðina í þessu tilviki þá að málinu yrði vísað til menntmn. og að hún sendi þessa einu lagagrein sem varðar annað en verksvið hennar til umsagnar hjá efh.- og viðskn. Ég held að með mörgum fleiri gildum rökum megi rökstyðja að málinu væri vænlegast komið í menntmn. sem eðlilega fjallar um málefni fjölmiðla, útvarpslög og annað slíkt. Ég geri þessa athugasemd, virðulegur forseti, og veit ekki hvort þá fer fram kosning ef líta ber á þetta sem tillögu um aðra nefnd.