Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 13:49:48 (7570)

2004-05-04 13:49:48# 130. lþ. 109.95 fundur 535#B lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það er vissulega þarft að taka á dagskrá í þinginu umræður um framtíðarhorfur varðandi rekstur Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðaratvinnuhorfur á svæðinu. Ber að þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir að eiga frumkvæði að því.

Kísiliðjunni verður lokað eins og hér hefur komið fram þann 1. desember nk. og við það missa fjölmargir íbúar í Mývatnssveit atvinnu, þeir sem þar hafa starfað. Það hefur verið unnið að því að setja á fót nýtt fyrirtæki eins og hér hefur komið fram um framleiðslu á kísildufti og hafa flest sveitarfélög á þessu landsvæði lýst sig tilbúin til að leggja fram allt að 150 millj. kr. í það fyrirtæki. Áætlað er að komist kísilduftverksmiðjan á laggirnar muni 35--40 manns fá þar starf.

Til atvinnuuppbyggingar á svæðinu voru sérmerktar 200 millj. kr. ef ég man rétt þegar verksmiðjan yrði lögð niður. Ég held að það hafi komið fram í máli hæstv. ráðherra áðan varðandi kísilgúrverksmiðjuna.

Baðfélagið mun væntanlega hefja starfsemi í lok maí en eftir stendur að atvinnuleysi verður til staðar á svæðinu þegar á næsta ári. Við þann vanda verður að fást og vonandi verður það ástand aðeins tímabundið. Í því sambandi vil ég minna á að það mundi auðvitað auðvelda atvinnusókn út af svæðinu ef sú tillaga sem Frjálsl. hefur flutt í hv. þingi um að launþegar megi draga ferðakostnað sinn frá tekjum, þ.e. þegar þeir þurfa að sækja atvinnu um langan veg, hefði verið samþykkt. Það hefði vissulega komið til móts við það ástand sem þarna getur myndast. Hins vegar vænti ég þess að þar sem þetta er í kjördæmi hæstv. iðn.- og viðskrh., ráðherra byggðamála, muni eigi standa á því að finna einhvern aukinn stuðning við að efla atvinnulíf á svæðinu.