Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 13:51:59 (7571)

2004-05-04 13:51:59# 130. lþ. 109.95 fundur 535#B lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er ákaflega mikilvægt fyrir íbúa Mývatnssveitar og Húsavíkur að það skýrist sem fyrst hvernig framhaldið verður um fjármögnun kísilduftverksmiðjunnar. Sveitarfélög fyrir norðan hafa unnið af krafti að því að ná þessari fjármögnun. Þau hafa m.a. stofnað félagið Fjárþing ehf. til að leggja fé í kísilduftverksmiðjuna. Byggðastofnun hefur komið að málinu með lánsloforðum og ráðuneytið hefur lagt sitt af mörkum. En það verður að klára þetta mál. Þess vegna verður ráðuneytið að setja aukinn kraft í að ganga frá þessu og klára málið.

Í Mývatnssveit er mikill kraftur í ferðaþjónustu. Baðfélagið sem nú hefur verið stofnað og mun opna í sumar er mjög mikilvægur stuðningur við þá ferðaþjónustu sem fyrir er í Mývatnssveit. Einnig hafa komið fram mjög áhugaverðir kostir um vetrarferðaþjónustu í Mývatnssveit og skemmtilegar viðskiptaáætlanir hafa verið kynntar hvað hana áhrærir. Þá verður auðvitað möguleiki á því að ferðaþjónustan í Mývatnssveit verði meiri heilsársatvinnugrein þannig að fleiri geti byggt heilsársafkomu sína á henni.

Hæstv. forseti. Viðfangsefnið fyrir heimamenn og sveitarstjórn verður allt annað til þess að fást við ef fjármögnunin skýrist sem fyrst. Kísilduftverksmiðjan er forsenda fyrir því að þarna geti haldið áfram blómleg byggð. Þó að þetta millibilsástand verði á milli þess að kísilgúrverksmiðjan loki og kísilduftverksmiðjan verði að veruleika munu Mývetningar og Þingeyingar komast yfir þetta millibilsástand ef það skýrist sem fyrst hver staðan verður.