Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 13:54:23 (7572)

2004-05-04 13:54:23# 130. lþ. 109.95 fundur 535#B lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. málshefjanda Halldóri Blöndal það að hefja þessa nauðsynlegu umræðu. Við vitum það sem hér erum að Kísiliðjan við Mývatn hefur gegnt gríðarlega miklu hlutverki í atvinnulífi Mývetninga og Suður-Þingeyinga og í raun má segja að ef Kísiliðjan hefði ekki starfað á síðustu áratugum væri byggð svipur hjá sjón miðað við stöðuna eins og hún er í dag.

Við sem hér erum hljótum að fagna því að niðurstaða um uppbyggingu kísilduftverksmiðju mun birtast okkur mjög fljótlega og að allar líkur eru á að af þeirri uppbyggingu verði. Við verðum jafnframt að játa að það hefur orðið tap á rekstri Kísiliðjunnar síðustu ár og í raun er það fagnaðarefni út af fyrir sig að mögulega muni arðbær kísilduftvinnsla verða tekin upp í framtíðinni. Það var mjög merkileg ræða --- en við erum vön að heyra það í þessum sal hjá hv. þm. Kristjáni Möller --- og mikilsvert innlegg í byggðamálaumræðuna þegar hann gagnrýndi ríkisstjórnarflokkana fyrir atvinnuuppbyggingu Suður-Þingeyjarsýslu nú þegar við horfum upp á að ríkisstjórnarflokkarnir ætla að verja 200 millj. í að byggja upp kísilduftverksmiðju við Mývatn. Það er búið að leggja fjármuni í uppbyggingu pólýólverksmiðju í Suður-Þingeyjarsýslu og það er búið að leggja mikla peninga í baðfélag. Svo talar hv. þm. eins og hæstv. ríkisstjórn hafi ekki gert neitt í þessum málum. Þetta er bara eins og málflutningur hans hefur verið í byggðamálum á umliðnum árum, eintóm yfirboð og staðleysur.

Ég vil segja það að lokum, hæstv. forseti, að ég hrósa hæstv. iðn.- og viðskrh. Valgerði Sverrisdóttur. Mér finnst hún hafa haldið ákaflega vel á málefnum Suður-Þingeyinga í þessu máli. Ég hef trú á því og ég hef vissu um það að úr atvinnumálum Mývetninga muni rætast og að þeir fjármunir sem fengust við sölu Kísiliðjunnar muni nýtast vel til atvinnuuppbyggingar heima í héraði. Ég vil segja það hér um málflutning hv. þm. Kristjáns Möllers að hann er ekki til þess fallinn að auka tiltrú Suður-Þingeyinga á búsetu þar.