Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 13:59:06 (7574)

2004-05-04 13:59:06# 130. lþ. 109.95 fundur 535#B lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Allt frá því að Kísiliðjan hóf vinnslu á kísilgúr úr Mývatni árið 1967 hefur mikill styrr staðið um reksturinn. Gagnrýnin hefur beinst fyrst og fremst að vinnslu hráefnis úr setlögum á botni Mývatns en áhrif þessarar vinnslu á lífríki Mývatns voru ekki þekkt á þeim tíma sem Kísiliðjan var stofnuð. Varúðarregluna ber að virða og það hefur legið fyrir í nokkur ár að starfsemi Kísiliðjunnar væri mjög ótrygg, bæði út frá náttúruverndarsjónarmiðum og einnig vegna nýrra framleiðsluhátta á kísilgúr. Það hefði því ekki átt að koma nokkrum á óvart að verksmiðjunni yrði lokað.

Það er ljóst að Kísiliðjan hefur gríðarlega þýðingu fyrir Mývatnssveit og nærliggjandi sveitarfélög og er Húsavík gott dæmi um þá keðjuverkun sem Kísiliðjan og starfsemi hennar hefur. Þegar ríkið seldi hlut sinn í Kísiliðjunni árið 2001 var það gert undir því fororði að önnur verksmiðja mundi rísa í hennar stað. Forsvarsmenn Kísiliðjunnar hafa um alllangt skeið unnið að undirbúningi kísilduftverksmiðju en enn vantar fjármagn til að tryggja starfsemina. Ef allt gengur eftir með kísilduftvinnslu þarf, eins og fram hefur komið, að brúa yfirgangstíma milli starfsemi verksmiðjanna með nýjum störfum eða undirbúningi að breyttu atvinnuumhverfi.

Ríkið á að koma að þessari uppbyggingu með heimamönnum. Það á að styrkja byggðina og forða fólksflótta af svæðinu sem annars blasir við þar sem a.m.k. 50 manns munu missa störf. Margt getur komið til greina. Það er hægt að hækka hlutafé í kísilduftverksmiðjunni. Það er hægt að styrkja stofnun hennar með því. Það er hægt að koma á þjónustumiðstöð ferðamála, heilsuþjónustu og hvalaskoðun á Húsavík er hægt að styrkja svo og rannsóknarmiðstöð og það er hægt að styrkja átaksverkefni með sveitarfélögum og verkalýðsfélögunum.