Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:44:18 (7580)

2004-05-04 14:44:18# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Enginn þarf að efast um að ég berst með oddi og egg gegn allri gjaldtöku sem hugsanlega er verið að leggja á atvinnulífið. Í þessu tilfelli hins vegar varð ekki undan þessu vikist. (Gripið fram í: En breytingin á ...) Við komumst að því í vinnu nefndarinnar að aðferðin sem þarna er farin væri sú hagkvæmasta til þess að kostnaður við þessa innleiðingu yrði sem minnstur. Við vitum það manna best í Sjálfstæðisflokknum að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis og að á endanum lendir þessi kostnaður á neytendum. Þess vegna leggjum við afar mikið á okkur til þess að öll þessi umsýsla megi verða sem minnst og að hagkvæmni verði leitað sem víðast, ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson má vera að því að hlusta á mitt mál. Það er stefna okkar og við höfum ekkert breytt þeirri stefnu, hv. þingmaður.