Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:45:33 (7581)

2004-05-04 14:45:33# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Það er því miður þannig, herra forseti, að hægt er að fara yfir lítil mál og stór mál og það ber allt að sama brunni. Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur kallað til þess að vera málsvari frelsis og lipurðar í atvinnulífi er að verða brautryðjandi í því að draga úr frelsi í atvinnulífi. Það er sama hvert litið er. Við skulum halda okkur við hafnirnar. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem hér í fyrra kom í gegn lögum sem gjörbreyttu rekstrarumhverfi hafnanna. Það leiddi til þess að ríkisstyrkir til hafnanna féllu niður í stórum mæli (Gripið fram í.) og í staðinn komu álögur á atvinnulífið.

Ef við lítum bara á hin stærri mál. Við vorum hér í allan gærdag að rökræða fjölmiðlamál sem gekk fyrst og fremst út á það að Sjálfstæðisflokkurinn, sökum dynta foringjans, var að draga úr frelsi manna til þess að reka atvinnustarfsemi á því sviði. Nei, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir ætti að fara og lesa gömlu mennina, Ólaf Thors, Bjarna Ben. Þá fær hún hina sönnu sjálfstæðisstefnu. (Gripið fram í: Geri það reglulega.)