Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:53:47 (7586)

2004-05-04 14:53:47# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. formaður Samfylkingar fór hér mikinn og flutti hér að mörgu leyti mjög góða ræðu, skorinorða eins og hans er von og vísa og gagnrýndi okkur fulltrúa í hv. samgöngunefnd. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann væri hálfpartinn að saka okkur um slæleg vinnubrögð. Ég vil fullvissa hv. þm. um að við höfum farið mjög ítarlega ofan í það frumvarp sem hér um ræðir, talað við alla hlutaðeigandi aðila og eins og fram hefur komið hér m.a. hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur þá er hér um samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar að ræða og okkur er skylt að undirgangast hana fyrir 1. júlí næstkomandi.

Ég kem hér upp og tel mig þess knúinn að koma hér upp til þess að ræða við hv. formann Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, um það flokksstarf sem á sér stað í þingsölum Alþingis því ég get ekki betur séð en hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi skrifað undir það frumvarp sem hér liggur fyrir án fyrirvara. Þess vegna kemur það okkur spánskt fyrir sjónir þegar formaður Samfylkingarinnar kemur hér upp og er mjög hvassyrtur í garð okkar þingmanna sem sitjum í hv. samgöngunefnd og hálfpartinn les okkur pistilinn. Ég segi það hér og þingmönnum Samfylkingarinnar til vorkunnar að þetta er ekki einn af betri dögum formanns Samfylkingarinnar.

Ég ætla að ráðleggja hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem sitja í hv. samgöngunefnd að leita til þingflokksformanns síns sem fer með innri stjórn hér á þingi því mér fannst hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, ráðast full ómaklega að sínum nefndarmönnum sem sitja fyrir hönd Samfylkingarinnar í samgöngunefnd. Og auðvitað sárnar mér fyrir hönd minna félaga þó þeir séu ekki í Framsóknarflokknum. En hver veit nema þeir endi þar að lokum ef fram heldur sem horfir. (Gripið fram í.) En ég vil segja það hér að ég held að það sé nokkuð ljóst að ég held að stjórn á þingflokknum sé að einhverju leyti ábótavant miðað við síðustu (Forseti hringir.) ræðu hv. formanns Samfylkingarinnar.

(Forseti (GÁS): Stjórnin á þinginu er góð. Ég bið hv. þingmann að gæta að rauða ljósinu og aðra þingmenn.)