Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 15:12:14 (7591)

2004-05-04 15:12:14# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við þá mynd sem hv. formaður samgn. dregur upp af kostnaði í þessu efni, og ætti hann þó að vita betur verandi fyrrverandi formaður hafnarstjórnar Reykjavíkur. Þó ég rengi ekki þær tölur sem hann tiltekur um kostnað ríkisstofnana, nefnir hann ekki kostnað hafnanna. Þar liggur meginþunginn í þeim kostnaði sem velt verður yfir á neytendur og yfir á fyrirtækin í landinu í málinu. Þannig hefur það verið upplýst í hafnarstjórn Reykjavíkur að árlegur kostnaður við breytingarnar fyrir höfnina og flutningafyrirtækin í Reykjavíkurhöfn er hátt í 200 millj. kr. Við erum að tala um gríðarlegan kostnað sem felst í girðingum, eftirlitsmyndavélum, lýsingum og kannski síðast en ekki síst í því að þurfa að koma upp mönnuðum vakthliðum 24 tíma á sólarhring, 7 daga vikunnar, allan ársins hring. Bara að reka eitt slíkt hlið, til að loka af einu svæði á hafnarsvæði, kostar tugi milljóna á hverju ári. Þess vegna er kostnaðurinn mjög fljótur að safnast upp og full ástæða til að hafa áhyggjur af honum. Ég geri athugasemdir við að hv. formaður samgn. dragi ekki þennan kostnað fram í því yfirliti sem hann gefur þinginu, því nauðsynlegt er að hið háa Alþingi sé sér algerlega meðvitað um þá miklu skatta sem verið er að leggja á neytendur og fyrirtæki í landinu.