Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 15:13:48 (7592)

2004-05-04 15:13:48# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, Frsm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Meginhluti Reykjavíkurhafnar er lokaður allt árið. Skipafélögin hafa gert það. Sú lokun hefur ekki fallið á kostnað Reykjavíkurhafnar.

Vert er að geta eins sem ég gleymdi áðan. Það gæti farið svo að sambærilegar kröfur yrðu gerðar eins og nú þegar eru gerðar varðandi höfn í Rotterdam. Þar eru gerðar kröfur um að skyggnir sé til staðar eða gegnumlýsingartæki sem gámar verða að fara um áður en þeir eru fluttir til Bandaríkjanna. Ég vona að það komi ekki til á Íslandi, en hins vegar er upplýst að slíkt tæki kostar nærri hálfan milljarð.

Ég vil ekki fara út í pólitískt tog um málið, vegna þess að allir nefndarmenn voru sammála um að þetta skref yrði að stíga, hvort sem okkur líkaði betur eða verr. Það er alveg ljóst. Síðan má alltaf deila um kostnaðinn og hvar hann á að falla, en ljóst er að það er ekki vilji samgn. að efla eftirlitsiðnaðinn eins og hefur verið títtnefnt í dag. Þetta er eitt af þeim málum sem við komumst ekki hjá, frekar en vopnaleitargjöld og önnur gjöld sem falla orðið á flugið vegna kröfu þar um. Þetta er hinn blákaldi raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir.

Vegna þess sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á varðandi kostnað Reykjavíkurhafnar sérstaklega, liggur það ljóst fyrir að skipafélögin lokuðu höfninni þar fyrir mörgum árum, þó enn sé nokkur kostnaður sem mun til falla vegna enn frekari krafna en verið hafa fram að þessu.