Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 15:18:10 (7595)

2004-05-04 15:18:10# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson harmaði það með hvaða hætti flutningar hafa færst af hafinu yfir á vegi landsins. Ég spyr hv. þm.: Telur hann að þau gjöld sem nú er verið að leggja á hafnir og flutningastarfsemi á sjó muni ýta undir það að menn flytji vörur á hafinu í ríkari mæli? Ég spyr hann um það.

Ég hirði lítt um þann kostnað sem hv. þm. nefndi að mundi falla til þess að vopna sérsveitir ríkislögreglustjóra sem eiga að hafa með höndum váeftirlit í höfnum landsins. Ég er búinn að fara yfir það mál og ætla ekki að gera það núna.

Meginefni ræðu minnar var vitaskuld það að Sjálfstfl. leggur þetta frv. fram og það er Sjálfstfl. sem fyrst og fremst hefur hamast gegn því sem hann kallar eftirlitsiðnað. Það er ekkert sem liggur eins þungt á Sjálfstfl. og vöxtur eftirlitsiðnaðarins. Þá hlýtur það að vera mikil þverstæða, annars vegar milli orða Sjálfstfl. og hins vegar gjörða Sjálfstfl., að leggja fram frv. um siglingavernd sem felur í sér sex tegundir nýrra eftirlitsgjalda. Bara í einni grein er að finna sex ný gjöld, staðfestingargjöld, eftirlitsgjald, útgáfugjald, siglingaverndargjald, skipagjald og farþegagjald. Hvers konar stjórnsýsla er þetta?

Sjálfstfl. á tvo kosti. Annars vegar að fara þessa gjaldtökuleið og hins vegar að standa við það sem hann segir í stjórnarsáttmálanum um að spara og hagræða, t.d. í yfirstjórn ríkisins, til að skapa svigrúm sem hægt væri að nota til að mæta þessu. Maður hlýtur óneitanlega að spyrja: Af hverju gerir Sjálfstfl. það ekki?