Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 16:02:35 (7603)

2004-05-04 16:02:35# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, KLM
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[16:02]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Umræðan um málið sem nú er á dagskrá, þ.e. um siglingavernd, hefur eðli málsins samkvæmt farið í að ræða talsvert um gjöld og annað slíkt vegna þeirra auknu skyldna sem lagðar verða á hafnirnar. Þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samf., fjallaði áðan um öll þau gjöld sem á að taka upp í tengslum við málið þá rifjaðist upp fyrir mér breyting á hafnalögum sem gerð var í fyrra. Sú slæma aðgerð sem samgrh. beitti sér fyrir samkvæmt áliti nefndar sem hann skipaði þar á undan. Samgrh. sigldi í kjölfar niðurstöðu þeirrar nefndar til að breyta lögum um hafnir eins og mönnum er kunnugt. Sú breyting gerði það að verkum að margar hafnir víðs vegar á landinu munu lenda í og eru þegar byrjaðar að lenda í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Þau gjöld sem þær eiga að innheimta og þær tekjur sem þær eiga að fá munu engan veginn koma á móti þeim ríkisframlögum sem féllu niður. Þess vegna munu þær hafnir okkar halda áfram að drabbast niður. Ég hygg að það sé hægt að fara vítt um landið, til Vestmannaeyja, Siglufjarðar, Ísafjarðar og annarra staða og sjá að reynslan af þeim breytingum mun tifa inn næstu árin. Þær tekjur sem boðaðar voru í þessum nýju hafnalögunum, með þeim breytingum, munu ekki skila í takt við það sem reiknað var með.

Ég minnist þessa nú þegar enn einu sinni er lagt fram frv. með fjölda möguleika á að leggja á gjöld til að innheimta fyrir þeim kostnaði sem hafnirnar sannarlega verða fyrir. Í 9. gr. þessa frv. segir að höfnum sé heimilt að innheimta sérstakt gjald, siglingaverndargjald. Höfnum er einnig heimilt að innheimta gjald fyrir hvert skip. Höfnum er heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir hvern farþega. Höfnum, sem annast tilfallandi framkvæmd siglingaverndar, er heimilt að innheimta þann kostnað sem af hlýst o.s.frv. Siglingastofnun Íslands er heimilt að innheimta gjöld til að standa straum af kostnaði sem til fellur samkvæmt lögum þessum, þar með talin gjöld fyrir staðfestingar, eftirlit og útgáfu skráa o.s.frv.

Herra forseti. Í nýbreyttum hafnalögum segir, í 17. gr. um gjöld, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að innheimta eftirtalin gjöld fyrir rekstur hafna samkvæmt kafla þessum:

1. Skipagjöld á skip þau og báta er nota viðkomandi höfn ...

2. Vörugjöld af vörum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar ...

3. Farþegagjald og gjald fyrir bifreiðar sem ekið er um borð eða frá borði í ferju til þess að standa straum af kostnaði við aðstöðu og búnað fyrir farþega og bíla.

4. Leigugjald fyrir svæði til lestunar og losunar á vöru.

5. Gjald fyrir geymslu vöru á hafnarsvæði til að standa straum af kostnaði við rekstur vöruaðstöðu.

6. Leigugjöld fyrir afnot af mannvirkjum eða tækjum hafnarinnar, þ.m.t. upptökumannvirkjum og löndunarkrönum. Gjaldið skal standa undir kostnaði við rekstur, viðhald og endurnýjun mannvirkjanna.

7. Leyfisgjöld fyrir bryggjur og önnur mannvirki sem gerð hafa verið ...

8. Lóðargjöld og lóðarleigu.

9. Hafnsögugjöld sem skulu standa straum af kostnaði við hafnsöguþjónustu.

10. Gjöld fyrir þjónustu dráttarbáta sem skulu standa straum af kostnaði við rekstur dráttarbáta.

11. Festargjöld sem nota skal til að greiða kostnað við festarþjónustu sem höfnin veitir.

12. Gjöld fyrir sölu á vatni og rafmagni.

13. Sorpgjöld sem skulu standa straum af kostnaði við sorphirðu frá skipum og fyrirtækjum á hafnarsvæði.

14. Vigtargjald sem standa skal straum af kostnaði við rekstur, viðhald og endurnýjun hafnarvogar.

15. Umsýslugjald ...``

Herra forseti, þetta er víst búið. Þau eru þar með upp talin öll 15 gjöldin sem samþykkt voru með hafnalögunum í fyrra. Sjálfstfl. beitti sér fyrir að búa til þessa frábæru hugmynd, eða hitt þó heldur, gjaldheimtu af skipum og tekjustofnum hafna í framhaldi af því sem ég gat um áðan, að fella niður ríkisstyrki til hafna.

Þvílíkt hugmyndaflug í samgrn. að búa til svona vitleysu. Svo kórónar það allt saman með því að bæta við:

,,Gjaldtaka hafnar skal miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er.`` --- Með öðrum orðum verður að fara fram kostnaðarmat á hverjum þætti.

Yfir þetta var vandlega farið í fyrra og rétt að vísa í þá ræðu sem ég flutti af því tilefni. Þarna eru sem sagt 15 gjöld og svo bætast við sex, sjö, eða hvað þau eru mörg verði þetta frumvarp að lögum. Herra forseti getur ímyndað sér hvernig reikningurinn lítur út fyrir þann sem þyrfti að borga öll þessi gjöld. Sá reikningur tæki yfir nokkuð mörg blöð.

Ég verð að segja alveg eins og er, að það er furðulegt hvernig samgrn. vinnur að þessu. Ég verð að segja að ég hef eiginlega dáðst að þeim mönnum sem búa til þessi frumvörp, að hafa hugmyndaflug til að búa til þvílíkan haug af gjöldum til að innheimta. Ég er hins vegar hissa á því að ekki hafi verið reynt að setja þetta í skárri búning og auðvelda skriffinnskuna í kringum þetta. Þetta frv. bítur svo höfuðið af skömminni með nýjum gjöldum.

Herra forseti. Ég vildi leggja þessar vangaveltur til umræðunnar um leið og ég minni á að sumt af þessu ráðum við ekki við, t.d. þetta með siglingaverndina sem tekið er upp vegna ástandsins í heiminum, vegna hryðjuverka og þess háttar atburða. Þetta er slæmur fylgifiskur ástands heimsmála. Það er sífellt verið að auka eftirlit sem kostar háar fjárhæðir sem leggjast eðlilega á þá sem njóta þjónustunnar. Þetta er skattheimta á þann rekstur, tekjurnar aukast ekki. Verra er þó að ásamt hafnalögunum síðustu, svo gölluð sem þau voru, þeirri árás á hafnir og sveitarfélög sem hafnirnar reka, er gjaldtakan eiginlega meiri en nóg og komin upp í kok á mönnum.

Virðulegi forseti. Þegar eru komnir í ljós, miklu fyrr en menn reiknuðu með, ókostirnir og gallarnir við þessi nýju hafnalög og þær tekjur sem hafnirnar eiga að innheimta. Þegar hafnirnar ætluðu að búa til gjaldskrá til að hafa uppi og safna peningum fyrir nauðsynlegum framkvæmdum sem þurfti að ráðast í þá kveinkaði útgerðin sér strax og tók að hóta því að sigla frá viðkomandi höfnum ef gjöldin yrðu ekki lækkuð. Hvað gerðist? Hafnirnar tóku sig allar til, hver á fætur annarri, og þorðu ekki annað en að lækka gjaldskrár sínar. Þetta er því tifandi tímasprengja, ef svo má að orði komast, þ.e. tekjuleysi hafnanna. Þær munu ekki safna tekjum í sjóði til að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum. Eftir einhver ár mun þetta koma skýrar í ljós. Það getur vel verið að það verði ekki fyrr en eftir að við erum lausir við hæstv. ríkisstjórn sem nú situr. Það gæti orðið vandamál annarra ríkjastjórna að taka á því. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu atriði, herra forseti.