Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 16:15:14 (7606)

2004-05-04 16:15:14# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, Frsm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt eins og hv. þm. kom hér inn á að við vorum að horfa á allt annað módel þegar lögum um hafnir var breytt. Ég gat hér sérstaklega um dráttarbáta. Þá kom hv. þm. og sagði: ,,Þá standa enn þá eftir 14 upptalin gjöld.`` En auðvitað er þetta allt tengt því ef skipin þurfa á þessari þjónustu að halda. En það er til tekið, haldið til haga og upptalið hvaða gjöld megi taka þannig að það sé kostnaðargreint þegar skip eða útgerðir fá reikning fyrir hvaða þjónustu verið er að greiða. Ég tel að það sé bara af hinu góða.

Það er eitt sem ég hef oft komið hér inn á og kannski er gott að ég nefni það nú við hv. þm. Kristján L. Möller sem þekkir Siglufjarðarhöfn mjög vel og fleiri hafnir á Eyjafjarðarsvæðinu: Hvernig má vera að svo mikill akstur með t.d. sjávarafurðir er orðinn eins og raun ber vitni? Hvernig má vera að hann sé kominn svo mjög á þjóðvegina í ljósi skýrslu sem hefur verið lögð fram um flutninga á sjó og landi og kostnaðarmun þar á, þar sem kemur fram að 70% dýrara er að flytja 40 feta gám með flutningabíl heldur en sjóleiðina? Í ljósi þessara staðreynda er samt sem áður enn þá mikill flutningur landveginn. Það leiðir auðvitað af sér að hafnarmannvirkin eru ekki eins nýtt t.d. af kaupskipum eins og eðlilegt mætti teljast í ljósi þessara staðreynda um kostnaðarmuninn á milli sjóflutninga annars vegar og landflutninga hins vegar.