Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:12:28 (7612)

2004-05-04 17:12:28# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:12]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. kom inn á mál sem okkur báðum er hjartfólgið, þ.e. línuívilnun. Það er alveg rétt hjá honum að menn koma til með að reikna þetta nýja veiðigjald út frá aflaverðmæti en síðan þurfa menn að skipta því á hvert þorskígildiskíló. Það þarf að rukka út frá aflaheimildum sem gefnar eru út og því veltir maður fyrir sér með aflaheimildirnar sem notaðar verða í línuívilnun hvort veiðigjaldið á þær heimildir verði í raun ódýrara miðað við hvert kíló sem landað er en í öðrum heimildum.

Ég verð einnig að segja að ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum með nefndarálit meiri hlutans í sjútvn. varðandi frv. því þar segir í raun eingöngu, með leyfi forseta, þegar búið er að telja upp þá gesti sem þar komu:

,,Í frumvarpinu er lagt til að gjöld sem eigendur skipa hafa greitt í Þróunarsjóð sjávarútvegsins skv. 4. og 6. gr. gildandi laga verði felld niður frá 1. september nk.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.``

Ekki er á nokkurn hátt reynt að útskýra í nefndarálitinu hvað þarna er á ferðinni og hvað hugsanlega gæti komið í staðinn eða hvaða áhrif þetta hefði á greinina eða fjárhag ríkissjóðs. Ég var reyndar svolítið undrandi á því líka að þegar frv. var lagt fram með kostnaðarmati fjmrn. reyndi fjmrn. ekki á nokkurn hátt að gera sér grein fyrir hvað gæti komið í staðinn þarna. Þeir reiknuðu út hver upphæð þeirra gjalda sem féllu niður væri en ekki var á nokkurn hátt reynt nú, eins og var þó fyrir tveimur árum síðan þegar þessi breyting var ákveðin, að reikna út hvað kæmi í staðinn og það hlýtur að sækja að manni sá grunur að ástæðan fyrir því sé kannski sú að gjaldið sé talsvert lægra vegna afkomu en menn ætluðu í upphafi.