Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:15:13 (7613)

2004-05-04 17:15:13# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:15]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Nú missti ég af fyrri hluta þessarar umræðu um málið sem við ræðum hér, það er frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92 frá 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Ég var upptekinn á fundi með forseta þingsins ásamt formönnum hinna þingflokkanna þannig að vera kann að ég hafi í raun misst af svari við einni spurningu sem mér leikur hugur á að fá svar við. Það er þannig, virðulegi forseti, að í athugasemdum við frumvarpið stendur að samkvæmt áætluðum efnahags- og rekstrarreikningi Þróunarsjóðs fyrir árið 2003 var hrein eign sjóðsins um 318 millj. kr. og ef áætlanir ganga eftir fyrir árin 2003--2009 má víst gera ráð fyrir að hrein eign sjóðsins verði um 370 millj. kr. þegar starfstíma hans á að ljúka samkvæmt lögum.

Í lögum um Þróunarsjóð kemur skýrt fram að ef þessi sjóður hættir störfum, eins og reyndar er verið að leggja til með frumvarpinu, þá eigi fjármunir hans að renna til hafrannsókna. Gott og vel. Þegar við hófum 2. umr. um frumvarpið fyrir um viku síðan, ef ég man rétt, spurði ég einmitt hv. formann sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, hvernig menn hefðu hugsað sér þetta varðandi skuldbindingar sjóðsins.

Nú hefur komið fram og ég hygg að allir sem á annað borð fylgjast með þessum málum viti það reyndar að þessi sjóður tók á sig skuldbindingar. Hann tók lán til að standa straum af kostnaði við smíði nýs hafrannsóknaskips, Árna Friðrikssonar. Ég spurði hv. þm. að því fyrir viku síðan hvað yrði um þessar skuldbindingar. Honum var ekki kunnugt um svarið þá en kannski hefur hann aflað sér upplýsinga á þeim dögum sem eru liðnir síðan þannig að hann geti þá svarað þessu núna. Kann að vera að hann hafi svarað þessu fyrr í dag. En þar sem ég missti af fyrri hluta umræðnanna eins og ég sagði áðan bið ég hann um að endurtaka svar sitt ef svo er. Það væri mjög gagnlegt að fá svar við þessari spurningu, frú forseti.

Eins og ég sagði áðan þá eiga fjármunir þessa sjóðs að renna til hafrannsókna samkvæmt lögum eins og þau eru í dag. Í sjálfu sér er kannski ekkert við það að athuga. Ég er einn af þeim sem hafa talað mjög hlýlega um það að okkur beri að auka fjármuni til þess að efla hafrannsóknir hér við land. Við eyðum of litlum peningum og jafnvel líka of litlum tíma í þennan mikilvæga málaflokk.

Þó er það svo, frú forseti, þegar maður fer að kynna sér þetta mál og skoða svolítið sögu Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og þær umræður sem hafa verið í þinginu á undanförnum missirum að þá kemur ýmislegt athyglisvert í ljós sem ég tel rétt að gefa gaum núna þegar við ræðum endalok Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Það sem ég hnaut um þegar ég skoðaði þetta var að á 125. löggjafarþingi 1999--2000 var lagt fram frumvarp til laga á hinu háa Alþingi um breytingu á þessum lögum nr. 92 frá 1944, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Flutningsmenn frumvarpsins voru hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason. Frumvarpið er mjög einfalt og stutt og 1. gr. þess hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Fjárhæð styrks skal nema 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið er til varðveislu eftir 1. janúar 1990.``

Í greinargerð með þessu ágæta frumvarpi kemur fram að það skortir mjög fjármagn til varðveislu gamalla fiskiskipa sem menn vilja eiga til minja, ef svo má segja, til að varðveita merka sögu okkar í sjávarútvegi, og ekki bara fiskiskipa heldur ýmiss búnaðar jafnvel, ýmissa minja, jafnvel húsakosts og annars þess háttar. Ég held að flestir geti fallist á að við Íslendingar höfum ekki verið nógu dugleg við að varðveita minjar um þessa glæstu fortíð okkar sem sjávarútvegs- og fiskveiðiþjóðar. Má um það finna mörg ljót dæmi þar sem mikil menningarverðmæti hafa farið í súginn. Ég ætla svo sem ekki að rekja þá sorgarsögu í löngu orði hér og nú. Flestir kannast við einhver dæmi um þetta.

Þetta frumvarp dagaði reyndar uppi í þinginu. En nokkrum mánuðum síðar var frumvarpinu breytt í þingsályktunartillögu sem fór fyrir þingið á vordögum árið 2000. Að þessari þingsályktunartillögu stóð gjörvöll þáverandi sjávarútvegsnefnd sem voru hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, Jóhann Ársælsson, Árni Ragnar Árnason, Kristinn H. Gunnarsson, Svanfríður Jónasdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Arnar Kristjánsson, Vilhjálmur Egilsson og Hjálmar Árnason.

Þessi þingsályktunartillaga, frú forseti, er svolítið merkileg vegna þess að hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Tillaga til þingsályktunar um varðveislu báta og skipa. Frá sjávarútvegsnefnd.`` --- tek ég fram enn og aftur.

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.``

Þessi merka þingsályktunartillaga kom sem sagt í framhaldi af þessu frumvarpi. Menn höfðu sem sagt tekið frumvarpið og frekar breytt því í þingsályktunartillögu til þess að reyna að finna málinu einhvern farveg frá hinu háa Alþingi og inn í stjórnsýsluna. Þingsályktunartillagan hlaut ágæta meðferð í þinginu og var rædd og fór til atkvæðagreiðslu og var að lokum samþykkt á hinu háa Alþingi 9. maí árið 2000, það er fyrir réttum fjórum árum síðan. Hún flaug í gegn og varð sem sagt að þingsályktun, tilmælum til ríkisstjórnarinnar þar sem ríkisstjórninni var falið að undirbúa tillögur um það hvernig skyldi staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilvægar minjar um atvinnu og byggðasögu, og líka móta reglur um fjármögnun og annað þess háttar sem meðal annar Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki þátt í.

Síðan hefur töluvert vatn runnið til sjávar, frú forseti. En ég veit ekki til þess að nokkur skapaður hlutur hafi gerst. Þessi þingsályktunartillaga sem afgreidd var í þinginu hvarf út í tómið og ég held að ekkert hafi verið efnt á öllum þessum mánuðum sem liðnir eru. Það eina sem hefur gerst er að dýrmætum minjum um glæsta sögu okkar sem fiskveiðiþjóðar hefur enn haldið áfram að hraka og brotna. Þessar minjar hafa brotnað og týnst og mikilvægur hluti af menningararfleifð þjóðarinnar hefur farið í súginn. Ríkisstjórnin hlýtur að bera ábyrgð á þessari handvömm og ég verð að segja það, frú forseti, að mér finnst það mjög alvarlegt mál ef ríkisstjórnin fer ekki að tilmælum Alþingis.

Það er nú svo að Alþingi, þessi stofnun sem situr hér er dýr í rekstri og mér finnst mjög alvarlegt ef Alþingi er látið sólunda tíma sínum í umræður fram og til baka um mál, um þingsályktunartillögur. Þessi mál fara til nefnda og svo framvegis. Jafnvel er leitað eftir umsögnum. Þarna er miklum tíma eytt til einskis. Mikill tími fer í súginn. Alþingi vill vel en það rekst á ókleifan múr sem er ríkisstjórn Íslands. Þetta er mjög alvarlegt mál. Því miður er það svo, frú forseti, að einmitt grúsk mitt og eftirgrennslan í skjölum þingsins, eftir að ég settist á hið háa Alþingi fyrir réttu ári síðan, hefur leitt til þess að ég komst að því að þetta er ekki eina þingsályktunartillagan, því miður, sem virðist hafa dagað einhvers staðar uppi.

Ég þykist vita um annað dæmi um þingsályktunartillögu sem var samþykkt hér 3. mars árið 1998. Þar fól Alþingi ríkisstjórninni að skipa nefnd hæfra manna sem áttu að gera tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns. Þessi þingsályktunartillaga var lögð fram af þremur ágætum þingmönnum, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, hv. þm. Árna M. Mathiesen og hv. þm. Guðna Ágústssyni. Nú eru bæði hv. þm. Guðni Ágústsson og hv. þm. Árni M. Mathiesen ráðherrar í núverandi ríkisstjórn. En það virðist ekki hafa dugað til. Ég held að þessa þingsályktunartillögu hafi hreinlega dagað uppi. Ég hef reyndar lagt inn fyrirspurn til forsætisráðherra með ósk um skriflegt svar eða réttara sagt að hann segi okkur fréttir af störfum þessarar nefndar sem hann ber ábyrgð á að hafi átt að vera skipuð árið 1998, sennilega um sumarið. Það verður mjög gaman og athyglisvert að sjá hvaða fréttir hæstv. forsætisráðherra getur fært okkur af störfum nefndarinnar um Þingvallaurriðann. Nóg um það í bili.

Áður en ég held áfram er kannski best að minnast á þriðju þingsályktunartillöguna sem hefur farið í gegnum þingið og einhvern veginn dagað uppi að ég tel. Það er þingsályktunartillaga sem var samþykkt hér í mars árið 2003, tillaga til þingsályktunar um skipan nefndar til að meta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Flutningsmaður var Hjálmar Árnason. Sú tillaga hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd sem meti kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Nefndina skipi einn fulltrúi frá hverjum eftirtalinna aðila: Háskóla Íslands, sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri, Hafrannsóknastofnuninni, Samtökum fiskvinnslustöðva og sjávarútvegsráðherra sem jafnframt skipar formann.

Sjávarútvegsráðherra kynni Alþingi niðurstöður nefndarinnar eigi síðar en 15. mars 2003.``

Hér stendur: ,,... eigi síðar en 15. mars 2003``. Ég hygg reyndar að þetta sé prentvilla og þarna hafi átt að vera 15. mars árið 2004.

Þessi ágæta þingsályktunartillaga fór í gegnum hefðbundnar leiðir í þinginu. Hún fór fyrir sjávarútvegsnefnd og aftur inn í þingið og hún var samþykkt síðari hluta mars árið 2003. Flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, hv. þm. Hjálmar Árnason, var að vonum mjög stoltur af verkum sínum og gumaði mjög af því í kosningabaráttunni í fyrra fyrir rétt rúmu ári síðan að hann hefði einmitt fengið samþykkta þessa tillögu, þ.e. um skipun nefndar til að meta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Hann skrifaði m.a. grein sem er dagsett 19. mars 2003, með leyfi forseta:

,,Undirritaður hefur mikil tengsl við Færeyjar. Að undanförnu hef ég rætt við fjölmarga aðila þar um kerfið. Athygli vekur að almenn sátt virðist ríkjandi um það meðal eyjaskeggja. Gildir þá einu hvort um er að ræða sjómenn, útgerðarmenn, verkendur, bankamenn eða almenning. Sáttin er nokkuð almenn. Sú staðreynd að Færeyingar séu almennt sáttir beinlínis kallar á að skoða hvað í kerfinu felst. Sannarlega er til mikils að vinna ef hægt er að draga úr hinum langvarandi deilum um fiskveiðistjórnun hérlendis. En við verðum að vera viss í okkar sök áður en skrefið er stigið til fulls.``

Og áfram heldur hv. þm.:

,,Með samþykkt Alþingis hefur verið stigið raunhæft skref til markvissra vinnubragða gagnvart færeyska kerfinu. Framsóknarmenn áttu frumkvæði að því skrefi. Fróðlegt verður að sjá niðurstöðurnar. Þær munu a.m.k. skapa raunhæfan grundvöll til frekari ákvarðanatöku.

Hjálmar Árnason, alþingismaður, Suðurkjördæmi.``

Áfram hélt hv. þm. í kosningabaráttunni og fór mikinn við að auglýsa það sérstaklega fyrir kjósendum í Suðurkjördæmi að hann hefði barist fyrir því að þessi úttekt á færeyska kerfinu yrði gerð. Hér stendur m.a. í grein sem birtist á vefmiðlinum horn.is rétt fyrir kosningar í fyrra, með leyfi forseta:

,,Á síðasta þingi var samþykkt tillaga frá undirrituðum um að láta fara fram hlutlausa úttekt á kostum og göllum færeyska kerfisins og rannsaka hvernig það hentar við íslenskar aðstæður. Eftir slíka úttekt getum við fyrst tekið afstöðu til þess hvort færeyska kerfið er betra eða verra en okkar kerfi. Þá fyrst er hægt að bera saman kostina og gallana og síðan í framhaldinu að taka ákvörðun. Þetta er mjög ábyrg afstaða.``

Þetta skrifaði hv. þm. Hjálmar Árnason.

[17:30]

Því miður var þetta eintómt froðusnakk. Það var ekkert að marka orð þingmannsins, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta var eingöngu notað í blekkingarskyni af Framsfl. til að villa um í umræðunni, kasta ryki í augu kjósenda og telja þeim trú um að Framsfl. og ríkisstjórnin ætluðu sér að gera eitthvað raunhæft í að skoða þessi mál og leggja fyrir þjóðina hlutlausa skýrslu um þetta mál. Þetta kom mjög til umræðu í kosningabaráttunni. Þeirri fölsku gulrót var óspart veifað framan í kjósendur síðustu vikurnar fyrir kosningar og hv. þm. Hjálmar Árnason, sem því miður er ekki í salnum núna þótt hann ætti náttúrlega að vera hér sem einn af fulltrúum í sjútvn. til að taka þátt í umræðunum eða jafnvel aðeins til að hlusta, fór þar fremstur í flokki, enda var hann hinn stolti flutningsmaður að þessari þáltill. sem fór í gegnum þingið en dagaði síðan uppi eins og svo margar þingsályktunartillögurnar sem teknar eru til afgreiðslu í þinginu.

Frú forseti. Það er ljótt að blekkja kjósendur. Það er ljótur leikur sem hlýtur að koma frambjóðendum í koll fyrr eða síðar. Ég get lofað því að hv. þm. Hjálmar Árnason verður rukkaður um loforð sín um að úttekt verði gerð á færeyska kerfinu þótt síðar verði. En nóg um það.

Ég ætlaði einmitt að mæla fyrir því að við notuðum eitthvað af þeim peningum sem eru í þróunarsjóðnum --- þarna eru miklir peningar --- þó að það sé gott og gilt og góðra gjalda vert að nota peninga til hafrannsókna, að einhverjir fjármunir verði nýttir til að vernda sjóminjar, merkilegar minjar úr menningar- og atvinnusögu þjóðarinnar.

Reyndin er sú að talsvert er til af gömlum bátum sem liggja flestir undir skemmdum og brýnt er að verði bjargað. Við höfum nokkur dæmi, þó að þau séu ekki mörg, um það að slíkum bátum hafi verið bjargað. Þá báta er að finna í höfnum landsins, ekki mjög víða reyndar en á sumum stöðum. Þeir eru mikið augnayndi og mörgum til mikillar ánægju. Sumir af þessum bátum þjóna reyndar nýju hlutverki sem hvalaskoðunarbátar eða til að flytja ferðafólk.

Við höfum eitt glæsilegt dæmi frá Vestamannaeyjum, mótorbátinn Blátind, sem var smíðaður fyrir tæpum 60 árum. Hann hefur verið gerður upp af miklum glæsibrag og var afhentur menningarmálanefnd Vestmannaeyja til varðveislu á sjómannadaginn árið 2001, að mig minnir. Þar voru miklir eldhugar á ferð sem tókst að bjarga þessum fallega bát, sem nú er til mikillar prýði úti í Eyjum og mun væntanlega gleðja komandi kynslóðir. Margir af þessum gömlu bátum eru mjög fallegir og vekja tilfinningar meðal þjóðarinnar, ég tala ekki um þegar þeir eru einmitt gerðir upp með þeim hætti sem á að gera upp gamla báta, að þeir séu ekki dregnir á land og látnir rotna þar heldur notaðir áfram til siglinga, fólki til ánægju og yndisauka.

Ég man eftir öðrum bát sem búið er að bjarga. Hann er kominn í hús, sögufrægt skip sem lengi lá og grotnaði í Vestmannaeyjum, Skaftfellingur. Hann er núna geymdur í Vík í Mýrdal og bíður þess að verða gerður upp. Það er mjög merkilegt skip sem á sér mikla sögu á Suðurlandi.

Annað skip liggur því miður undir stórskemmdum og er okkur Íslendingum til mikilla vansa hve illa hefur verið farið með það. Það er kútter Sigurfari á Akranesi. Það merkilega skip var illu heilli dregið upp á land, hefur síðan verið að rotna þar í aldarfjórðung og er orðið mjög illa farið. En það eru engir peningar til að bjarga þessu skipi. Þetta er eini kútterinn sem við Íslendingar eigum í dag og hann er því miður að hverfa ofan í jörðina. Það er til skammar fyrir okkur Íslendinga hvernig við höfum farið með það skip.

Það á að bjarga þessum gömlu tréskipum og nota þau, sigla þeim. Ég vek t.d. athygli á því að nágrannaþjóðir okkar, bæði Norðmenn og Færeyingar, eiga marga kúttera. Þeir hafa ekki verið svo vitlausir að draga þá upp á land. Nei, þeir sigla á þeim, nota þá og viðhalda þekkingu meðal þjóðarinnar um hvernig eigi að sigla svona skipum. Ég hygg að sú þekking sé ekki til staðar á Íslandi lengur, þekkingin á því hvernig sigla eigi kútter. Þannig er komið fyrir siglingaþjóðinni og fiskveiðiþjóðinni Íslendingum í dag, að þeir gætu ekki siglt kútter þó að líf þeirra lægi við. Þannig er nú það.

Annað skip sem ég man eftir er bátur uppi á Akranesi sem stendur þar uppi á kambi, Höfrungur. Hann er dæmigert síldveiðiskip frá því á síðustu öld sem bíður þess að vera gerður upp en liggur undir skemmdum.

Frú forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa mál mitt mikið lengra en þetta. Ég vona að það veki einhverja til umhugsunar um þær miklu og merkilegu menningarminjar sem enn eru til og enn er hægt að bjarga. Til þess að svo megi verða held ég að hið háa Alþingi verði að grípa inn í og reyna að finna til þess fjármögnun. Ég tel einmitt að nú sé tækifærið þegar við ígrundum hvernig fara skuli með þróunarsjóð og þá peninga sem þar eru. Ég tel að við þingmenn ættum að staldra við. Við erum fjárveitingavaldið og við erum löggjafarvaldið, alla vega í orði og vonandi líka á borði. Við ættum að staldra við og íhuga hvort ekki ætti að reyna að beina einhverju af þessum peningum í að bjarga þessum merkilegu minjum um atvinnusögu okkar. Það er alveg klárt, frú forseti, að ef þær glatast þá verða þær ekki endurheimtar.