Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:36:16 (7614)

2004-05-04 17:36:16# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. meiri hluta GHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:36]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spurði um 318 millj. kr. sem hreina eign. Þegar rætt er um hreina eign þá eru allar skuldir farnar. Spurning er síðan um hvernig mati á eignum er háttað. Hins vegar liggur fyrir að þetta á að vera hrein eign upp á 318 millj. kr. og um 370 millj. kr. árið 2009. Það er rétt, sem fram kemur í lögunum, að peningunum á að ráðstafa til hafrannsókna. Það liggur fyrir.

Varðandi tillöguna um varðveislu gamalla skipa þá ræddum við þetta í sjávarútvegsnefnd. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson lét kanna hvert umrædd tillaga fór í meðferð þingsins og ef ég skil hann rétt þá var henni vísað til hæstv. menntmrh. Ég held að það væri ágætt sem fyrsta mál fyrir hugmenn í þessu máli að leggja fram fyrirspurn um stöðu þessa máls áður en við höldum áfram. Það er ljóst að þótt hér sé breytt ákvæðum um þróunarsjóðinn þá er hann ekki lagður af, hann á að lifa til 2009 samkvæmt frv. Því er nógur tími til að skoða þau mál og eðlilegt að spurt verði um hver sé staða þessa máls í dag.