Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:43:26 (7618)

2004-05-04 17:43:26# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Áður en ég ég fjalla almennt um afkomuna í sjávarútvegi og þróunarsjóðsgjaldið, sem ég ætlaði að gera í upphafi máls míns, hef ég ákveðið að klára að ræða um það sem hér var í umræðunni rétt áðan hjá hv. þingmönnum varðandi þróunarsjóðinn og þá tillögu sem hér var vikið að og samþykkt 9. maí árið 2000, um það að þróunarsjóðurinn kæmi að varðveislu gamalla skipa og varðveislugildi báta og skipa yrði skilgreint.

Það er rétt að þessi tillaga var samþykkt á hv. Alþingi og ríkisstjórninni falið að útfæra hana. Haustið 2000 spurði ég hæstv. forsrh. hvar þetta mál væri statt og hvernig því yrði fylgt eftir. Ég vék þá m.a. að afkomu sjóðsins og því sem hér hefur einnig komið fram í máli manna, að þróunarsjóðurinn hefur fengið tekjur af fjármunum sem í raun var búið að afskrifa, eins og A-hlutdeildarskírteinum sem menn töldu á sínum tíma að væru verðlaus eign en hafa síðan við samruna fyrirtækja í sjávarútvegi reynst pappírsins virði. Inn í þróunarsjóðinn hafa komið tekjur af þessum eignum sem menn töldu að mundu ekki skila sér. Þar af leiðandi stefnir staða sjóðsins í að verða betri en menn áttu von á, þrátt fyrir þær skuldbindingar sem á hann hafa verið lagðar, m.a. fjármögnun á nýju hafrannsóknarskipi.

Hæstv. forsrh. sagði, með leyfi forseta, þann 29. nóvember 2000 í svari við fyrirspurn sem ég bar upp um stöðu þessa máls á vegum ríkisstjórnarinnar:

[17:45]

,,Tillagan hefur fengið þá hefðbundnu meðferð og afgreiðslu í stjórnsýslunni að forsrn. hefur falið menntmrn. meðferð og framkvæmd hennar. Ég geri ráð fyrir því að ályktunin fái þá meðferð sem henni ber og í anda þeirrar tillögu sem samþykkt var í því ráðuneyti og er ekki í vafa um að ráðuneytið leysi vel úr því verkefni sem því hefur verið falið.``

Í lokaorðum ræðunnar sagði hæstv. forsrh. síðan, með leyfi forseta:

,,Ég tel að málið sé út af fyrir sig í eðlilegum gangi þrátt fyrir þessar ábendingar í greinargerðinni. Ég tel að málið sé komið í eðlilegan farveg og muni væntanlega fá málefnalega og góða meðferð sem hægt verður að greina frá í fyllingu tímans.``

Í þessari umræðu tóku þátt fleiri þingmenn, m.a. hv. þm. Jóhann Ársælsson. En undir lok umræðunnar sagði forsrh. orðrétt, með leyfi forseta:

,,Herra forseti. Ég hef fullan skilning á því að þetta er hið mikilvægasta mál og hluti af sögu okkar. Við vorum reyndar að rifja það upp hér, hæstv. utanrrh. og ég, að við áttum einmitt samstarf um það á sínum tíma þegar hann var sjútvrh. og ég borgarstjóri að bjarga einu slíku skipi, Aðalbjörginni sem var síðan sett upp í Árbæjarsafn og á síðan að hverfa á hafnarsvæði á nýjan leik. Þetta er stór hluti af sögu okkar. En við skulum gera okkur grein fyrir því líka að þetta er heilmikið mál. Við þekkjum vandamálin á Akranesi. Þar er hið merka skip, kútterinn. Menn eiga í erfiðleikum með hann þó að hann sé varðveittur þar. Þetta er heilmikið mál því það er ekkert auðvelt að varðveita þessi skip úti. Þau þarf helst að varðveita við réttar aðstæður, rétt rakastig og slíkt. Þetta er heilmikill kostnaður þannig að við verðum að fara í þetta af festu og alvöru en jafnframt með gát.``

Hæstv. forsrh. sagði að endingu:

,,En ég ítreka að ekki stendur annað til en reyna að afgreiða þetta mál fljótt og vel en það þarf líka að undirbyggjast vel.``

Þetta voru orð hæstv. forsrh. Síðan hefur verið kosið í þessu landi og tekið við ný ríkisstjórn. Enn þá er sami einstaklingur forsætisráðherra og ríkisstjórn með sömu flokkum en enn þá hefur ekki verið framkvæmt, a.m.k. ekki svo ég viti, það sem samþykkt var á hv. Alþingi. Sá vilji forsrh. sem kom fram í þeim svörum sem ég vitnaði til hefur heldur ekki gengið eftir. Ég tel að málið hafi fengið svæfingu í höndum fyrrv. menntmrh. Ég veit ekki hvað núverandi menntmrh. mun gera og aðhafast í þessu máli. Ég vona vissulega að hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir taki þetta mál upp. Ég vil hins vegar, af því að við erum að ræða um þróunarsjóðinn og af því að samþykkt var á hv. Alþingi að þróunarsjóðnum skyldi fengið þetta hlutverk, benda á að stefnumótun Alþingis liggur fyrir um að þróunarsjóðurinn geti komið að þessu verkefni.

Þegar menn hafa verið að reyna að varðveita söguna, hvort sem það eru sögulegar minjar á landi eða skip eins og í þessu tilfelli, hefur oft og tíðum verið erfitt að fá fjármagn til þeirra verkefna. Þau hafa stundum verið leyst sérstaklega í fjárln. með styrkjum til endurbyggingar einstakra skipa, til áhugamanna sem unnið hafa að því. Það er auðvitað vel og hefur tekist að varðveita mörg eldri skip með þeim aðferðum. Einkum hafa þetta verið minni fiskiskip, alveg niður í árabáta. Um það er ekkert nema gott að segja.

Það er hins vegar svo að við eigum aðeins einn kútter hér á landi, kútter Sigurfara, sem varðveittur er uppi á Akranesi. Skipið er því miður í mikilli niðurníðslu og þarf að gera átak í að varðveita það skip, okkar eina eintak frá því tímabili útgerðarsögunnar. Það mun kosta mikið fé. Ég hefði talið, hæstv. forseti, að þótt við legðum ekki til nema um helming af þeim 318 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að sé afgangs í sjóðnum, hvað þá ef tekst að varðveita eignir sjóðsins vel áfram, þá væri það markvert átak fyrir framtíðina í að varðveita útgerðarsöguna og atvinnusögu landsins. Ég teldi enga goðgá, hæstv. forseti, að hv. Alþingi fylgdi eftir stefnumótun sinni með því að leggja til breytingar á lögunum um þróunarsjóðinn, þ.e. að hluti þeirra fjármuna sem þar verða eftir við uppgjör nýtist til skynsamlegra verka og í sérstök verkefni eins og að varðveita kútter Sigurfara.

Auðvitað eru fjöldamörg önnur verkefni sem verja þarf fjármunum til í þessa veru en nú fer hver að verða síðastur í að ná til þeirra skipa sem byggð hafa verið úr viði hér á landi og viðhalda þeim eintökum sem menn telja á annað borð skynsamlegt að varðveita. Ég held að við hljótum að líta til þess, hv. þingmenn á Alþingi, að þessi stefnumótun Alþingis liggur fyrir og svar forsrh. var nokkuð skýrt að þessu leyti, hann vék m.a. að ástandi kútters Sigurfara uppi á Akranesi. Auðvitað mætti tína til fleiri verkefni sem hægt væri að marka skynsamlegar tekjur til og ná þeim áfanga að bjarga skipum sem menn telja þess virði að varðveita fyrir framtíðina og komandi kynslóðir.

Þó að í lögunum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sé núna tekið fram að fjármunir, ef einhverjir verða eftir, gangi til Hafrannsóknastofnunar til hafrannsókna að loknum gildistíma þeirra, skulum við ekki gleyma því að áður en það ákvæði var lögfest, sem mig minnir að hafi verið árið 1999, áttu fjármunir þróunarsjóðsins að renna beint til ríkisins. Síðan hefur Alþingi samþykkt þessa tillögu sem ég hef rætt. Ég tel að þrátt fyrir lögin um þróunarsjóðinn og afganginn af honum þá liggi jafnframt fyrir stefnumótun Alþingis um að ákveðnir hlutir af þessum fjármunum muni renna til varðveislu gamalla skipa. A.m.k. er algerlega ljóst í mínum huga, hæstv. forseti, að þeim peningum sem verða eftir í þróunarsjóðnum við uppgjör hans verði varið til ákveðinna verkefna. LÍÚ á enga sérstaka kröfu á að þeir fjármunir renni beint til samtakanna eða til útgerðarmanna. Þannig er nú það, virðulegi forseti.

Þetta vildi ég láta koma fram. Ég vonast vissulega til þess að þeir þingmenn sem eru svipað þenkjandi og sá sem hér stendur muni sameinast um það, þótt það verði ekki fyrr en á næsta þingi eða þarnæsta, að tryggja að ákveðnir fjármunir fáist til þeirra verka eins og að varðveita kútter Sigurfara. Ég er ekki viss um að við höfum annað tækifæri til þess að ná í peninga til að takast á við það verkefni. Það verður mjög dýrt að byggja kútter Sigurfara upp. Ég mundi spá því að það verkefni hlypi á tugum milljóna. Þeir peningar detta ekki ofan úr himninum. Ég held að stefnumótun Alþingis liggi fyrir að því er varðar hlutverk þróunarsjóðsins að hluta til í það verkefni.

Ég skrifaði undir þetta nefndarálit um þróunarsjóðinn með fyrirvara, m.a. vegna þess að ég vildi láta þetta koma fram að á hv. Alþingi hefði verið mótuð ákveðin stefna um fjármuni þróunarsjóðsins að þessu leyti, til varðveislu gamalla skipa. Ég vildi ekki ljúka umfjölluninni um þróunarsjóðinn án þess að láta þessa getið.

Ég velti vissulega fyrir mér öðru þegar ég skrifaði undir nefndarálitið. Það tengdist fyrirvara mínum einnig en það er fyrirkomulag gjaldtöku í sjávarútvegi sem hér var ágætlega fjallað um af hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrr í dag og hv. formanni sjútvn., Guðjóni Hjörleifssyni. Þeir fóru yfir það mál. Ég ætla ekki að rekja alla þá sögu sem hv. þm. Jón Gunnarsson fór yfir. Hann fór ágætlega yfir aðdraganda þess að sjóðurinn var stofnaður og til hvers hann var stofnaður. Hann fór einnig yfir atvinnutryggingardeildina og A-hlutdeildarskírteinin. Ég gat um það í upphafi ræðu minnar að auknir fjármunir í þróunarsjóðnum nú eru m.a. komnir til vegna þess að í raun eru að greiðast til baka skuldir sem menn voru búnir að afskrifa, varðandi A-hlutdeildarskírteinin og atvinnutryggingardeildina.

Rétt er að taka það fram að þingmenn Frjálslynda flokksins greiddu ekki atkvæði með upptöku veiðigjalds sem sett var í lög og á að koma til framkvæmda 1. september næstkomandi. Því var eiginlega fundinn staður í upphafi máls, ef ég man rétt, í skýrslu auðlindanefndar frá árinu 1999 sem gerði þá úttekt á málum sjávarútvegsins. Þar var sagt eitthvað á þá leið að forsenda þess að taka upp auðlindagjald skyldi vera niðurgreiðsla skulda í sjávarútvegi og það gjald skyldi vera magntengt annars vegar og afkomutengt hins vegar. Þetta var meginefnið í skýrslu auðlindanefndarinnar að því er varðaði þessa gjaldtöku.

Nú er það svo, virðulegi forseti, sem rétt er að láta koma fram við þessa umræðu, að sjávarútvegurinn hefur alls ekki verið að greiða niður skuldir sínar, því miður. Þær hafa verið að aukast. Ef ég man rétt úr umfjöllun úr fjölmiðlum og umræðu á fyrstu mánuðum þessa árs þá hafa lánastofnanir í þessu landi og ýmsir sem fylgst hafa með lántökum og breytingum á eign fyrirtækja í sjávarútvegi, m.a. sölu Landsbankans á Brimi o.s.frv., talið að það væri ekki óvarlegt að áætla að skuldir sjávarútvegsins hefðu aukist um 30--40 milljarða kr. í viðskiptum sem hafa átt sér stað innan sjávarútvegsfyrirtækjanna, við þau uppkaup og samþjöppun sem farið hefur verið í á undanförnum árum. Þótt menn séu að kaupa fyrirtæki og sameina þau við önnur þá hefur afkoman í sjávarútvegi ekki verið þannig á undanförnum árum að menn hafi hlaðið upp tugum milljarða í sjóði sína. Menn hafa vissulega tekið þessa peninga að láni. Það á líka við um þá þróun sem nú er í gangi, að menn eru að taka fyrirtæki út af markaði og setja fram yfirtökutilboð til minni hluthafa. Þeir peningar eru einnig teknir að láni að stórum hluta, við uppkaup á hlutum minni hluthafa.

Auðvitað væri hægt að rekja um þetta einstök dæmi. Ég ætla ekki að gera það hér en hins vegar er hægt að segja frá því að skuldir sem stofnað var til við að m.a. Grandi keypti HB leiddu til þess að Grandi seldi einhvers staðar hluti, m.a. vestur á fjörðum. Þeir sem þar voru í fyrirtæki tóku lán til að kaupa Granda út o.s.frv. Skuldirnar hafa víða myndast og liggja á sjávarútveginum. Því miður hafa þær aukist og að fróðra manna mati um 30--40 milljarða kr. á síðustu mánuðum og missirum. Það er auðvitað ekki góð staða og í allt öðru samhengi heldur en skýrsla auðlindanefndar byggði á, að sjávarútvegi gæfist tími til að greiða niður skuldir sínar. Sú þróun hefur alls ekki gengið eftir og væntingar manna til kvótakerfisins að þessu leyti eru algerlega á skjön við það sem menn töldu á sínum tíma.

[18:00]

Það er líka rétt að láta þess getið, hæstv. forseti, að ef ég man rétt voru tekjur sjávarútvegsins á árinu 2003, þ.e. aflatekjurnar af fiskveiðunum, 67 milljarðar. Ég held að ég hafi séð þetta í blaði alveg nýverið. Af þeim 67 milljörðum minnir mig að þorskurinn hafi gefið 23 milljarða, þorskaflinn, og ýsan sem var rúm 60 þús. tonn hafi gefið um 6 milljarða, 5,9, eða samanlagt tæpir 30 milljarðar og þá sjáum við að þorskurinn og ýsan gefa tæplega helminginn af heildartekjunum í sjávarútvegi. Mig minnir að loðnuveiðarnar á síðasta ári hafi gefið 4,9 milljarða. Þetta er sagt eftir minni en það er ekki langt síðan þetta var í blöðunum.

Ég segi þetta vegna þess að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson sagði áðan að áætlun sjútvrn. byggði á því að tekjurnar væru 78 milljarðar, fer ég ekki rétt með? Ef ég fór rétt með varðandi 67 milljarða á síðasta ári skakkar þarna 10--11 milljörðum á tekjunum. Þar af leiðandi er áætlun sjútvrn. um að við fáum tekjur upp á 1,1--1,2 milljarða út úr hinu nýja veiðigjaldi eða auðlindagjaldi miðað við þá prósentu sem á að taka á næsta fiskveiðiári, ekki alveg rétt. Það er sennilega frekar nær milljarði eða þar um bil sem tekjurnar gætu orðið miðað við þær forsendur. Við erum hins vegar að fella niður gjöld sem nema 782 millj. þannig að reikna má með að tekjurnar að því leyti til aukist þá um það sem þar munar, um kannski 200--300 millj. ef að líkum lætur.

Eftir sem áður fannst mér vegna afstöðu minnar til málsins að ég gæti ekki staðið að því að viðhalda þessari gjaldtöku, vera á móti niðurfellingu á henni, vitandi að síðan ættu að taka gildi þau lög og sú gjaldtaka sem á að koma 1. september. Ég tók því þá afstöðu að vera á nefndarálitinu með fyrirvara og það er auðvitað líka í ljósi þess að afkoma sjávarútvegins er ekki allt of góð um þessar mundir og þessi gjöld verða ekki lögð á sjávarútveginn hvor tveggja, þ.e. gamla þróunarsjóðsgjaldið og veiðileyfagjaldið og síðan þróunarsjóðsgjaldið á hvert skip og upptaka gjaldtökunnar 1. september sem miðast við afkomutengt auðlindagjald. Og af því að afkoman var slakari á síðasta ári en árið á undan og markaðsverð hafa farið lækkandi og talsvert verið talað um það í vetur að markaðsverð og tekjur sjávarútvegsins hefðu almennt lækkað um 20% á fyrstu mánuðum ársins miðað við árið á undan, geri ég ráð fyrir að þegar árið verður skoðað, uppgjörsárið sem á að miða við til 30. apríl, muni það dæmi sem ég hef nefnt upp á 67 milljarða jafnvel ekki vera að lagast þrátt fyrir það hvernig hlutirnir hafa gerst á eyrinni. Þó gæti verið að vegna þess að við höfum verið að auka ýsuveiðina og þorskveiðina með meiri heimildum í þorski og ýsu, eins og ég gat um áður, hafi sá aukni afli unnið eitthvað upp samdráttinn í verðmætunum vegna þess hversu þorskurinn og ýsan eru stórt hlutfall af heildartekjunum í fiskveiðunum, eða tæplega helmingur.

Það segir okkur auðvitað líka að það skiptir aldeilis miklu máli hvernig okkur tekst að nýta þorskstofninn og ýsustofninn og þá kemur auðvitað spurningin í framhaldi af því, ef við ætlum að ná þessum stofnum upp, hvort þá sé jafnvel orðið skynsamlegt að fórna einhverju til varðandi uppsjávarveiðarnar til þess að gefa þessum fiski að éta því að þarna eru alveg gríðarleg verðmæti. Þetta eru auðvitað líffræðilegar spurningar og eiga kannski ekki heima í umræðunni en rétt að láta þess getið.

Hins vegar er rétt að geta þess að þegar fara á að meta slík verðmæti, og það kom fram í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar áðan að hagfræðingarnir í fjmrn. eða Seðlabankanum ættu erfitt með að meta þetta og þeir geta ekki vitað beint um niðursveiflu í verðmætum, það er alveg örugglega rétt ályktun hjá hv. þm., en það er líka alveg örugglega rétt að þeir höfðu ekki hugmynd um að við mundum auka kolmunnaveiðarnar með því hraði sem við gerðum og sáu það ekki fyrir og það var ekki séð fyrir þegar við settum auðlindagjaldið á. Það er auðvitað þannig að bæði geta sveiflur í aflaverðmæti verið miklu hraðari í sjávarútveginum en menn hafa kannski gert sér í hugarlund og síðan höfum við auðvitað fengið til viðbótar verulega skelli eins og í rækju og hörpudisk sem við erum bara alveg hætt að veiða og allt hjálpast þetta að við að lækka tekjur sjávarútvegsins. Á móti hefur hins vegar komið meiri kolmunnaveiði sem hefur bætt þetta að einhverju leyti upp, en samt sem áður, hvert væri þá tekjufallið ef við hefðum ekki farið í kolmunnaveiðarnar, hvar værum við þá? Hvað væri þá að marka þessar áætlanir?

Virðulegi forseti. Ég tel að ekki sé hægt annað en að klára málið með þeim hætti sem hér er lagt upp með. Við getum ekki bæði verið með þróunarsjóðsgjöldin og síðan tekið upp veiðileyfagjaldið sem samþykkt var á hv. Alþingi. Þó að þingmenn Frjálsl. hafi ekki greitt því atkvæði þá er það staðreynd og við getum ekki í því árferði sem er núna í sjávarútveginum verið með miklar skuldir og tvöfalda gjaldtöku að þessu leyti. Ég vonast hins vegar til þess að árferði í sjávarútvegi fari batnandi og að sjávarútvegurinn geti á komandi árum greitt hærri gjöld og staðið algerlega undir þeim kostnaði sem honum tengist í atvinnurekstri eins og hafrannsóknum og veiðieftirliti.

Það er auðvitað sérmál að ræða veiðieftirlitið og hvernig það hefur þróast og mikil spurning hvort eftirlitsiðnaðurinn í því dæmi getur gengið svo fram sem horfir og hvort ekki sé orðin spurning um að breyta veiðikerfinu þannig að eftirlitsþátturinn verði ekki svona ofboðslega dýr og við séum ekki alltaf að telja fiska og kíló og þá erum við auðvitað komnir að þeirri grundvallarspurningu: Er eitthvert vit í því að hafa m.a. keilu, löngu, skötusel og fleiri tegundir inni í kvóta? Er eitthvert vit í öllu því eftirliti sem núverandi fiskveiðistjórnarkerfi býður upp á? Við í Frjálsl. höfum talið að það væri betra að skipta flotanum upp í útgerðarflokka og reyna að innleiða sókn í eitthvað af veiðunum, sérstaklega í botnfiskveiðunum, og höldum að það mundi spara mikla fjármuni í eftirlitsþætti og þar að auki auka verðmæti og minnka brottkast og laga umgengni varðandi veiðarnar.

Ég held að þetta nægi til að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hafði varðandi málið og segi að lokum að það ætti að vera hægt að nálgast með meiri vissu en við erum kannski að ræða í dag þær upphæðir sem við ætlum að byggja gjaldtökuna á. Viðmiðunarverð á olíu er þekkt um hver mánaðamót vegna þess að það tengist skiptaverði í kjarasamningum sjómanna og liggur fyrir um hver mánaðamót þannig að sú staðreynd ætti að liggja fyrir. Nú er komið fram yfir 30. apríl og það ætti að vera hægt að áætla þetta betur. Ég held að það væri fróðlegt og vík því að hv. formanni sjútvn., Guðjóni Hjörleifssyni, hvort ekki væri rétt að óska eftir frekari útreikningum frá sjútvrn. og taka síðan annan fund í nefndinni, t.d. á fimmtudag eða föstudag, á fyrirhuguðum nefndadögum, og vita hvort við værum komnir með raunhæfari áætlanir þannig að við værum með betra veganesti fyrir framan okkur þó að ég telji að menn hafi reynt að nálgast þá vitneskju og formaður nefndarinnar hafi reynt að fá fram þær upplýsingar sem mögulegt var að ná í. En viðmiðunartímabilið er sem sagt liðið og nú er bara spurning um að vinna úr þeim upplýsingum og það ætti að vera hægur vandi hjá ráðuneytinu með þeim upplýsingagögnum sem fyrir liggja í sjávarútvegi að áætla þetta með tiltölulega mikilli nákvæmni þannig að ekki skeikaði hundruðum milljóna í því dæmi. Það væri auðvitað fróðlegt áður en við stimpluðum málið til 3. umr. Eftir sem áður tel ég að málinu verði að ljúka á þessu þingi.