Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 18:11:50 (7619)

2004-05-04 18:11:50# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af þeim orðum sem féllu hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni varðandi vörslu gamalla skipa þá hafa þau ánægjulegu tíðindi gerst að borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að koma á sjóminjasafni. Reykjavíkurhöfn hefur keypt gamla bæjarútgerðarhúsið eða fiskvinnsluhús Bæjarútgerðar Reykjavíkur og hyggst koma þar upp sjóminjasafni. Jafnframt hefur verið hugað að því að væntanlega væri hægt að setja á laggirnar sjómannastofu á neðri hæð fyrir innlenda jafnt sem erlenda sjómenn.

Samgn. hefur nýlega afgreitt frá sér nefndarálit varðandi stofnun sædýrasafns á höfuðborgarsvæðinu þannig að það er margt að gerast í þessum málum. Hvað áhrærir þá ágætu aðstöðu í hinu gamla frystihúsi Bæjarútgerðar Reykjavíkur þá hef ég séð hugmyndir um að austanvert við húsið sem snýr í átt að Slippstöð Daníels hafi menn jafnvel hug á að vera með bryggju samsíða húsi bæjarútgerðarinnar einmitt til að geyma þar skip á floti. Það væri mjög áhugavert og er athyglisvert ef þeim langþráða draumi yrði hrint í framkvæmd og tengist það þá því sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom inn á varðandi Þróunarsjóðinn, að taka upp samstarf til að vernda gömul skip því að illu heilli á árum áður, eins og við þekkjum, þegar skip voru endurnýjuð varð að úrelda skip á móti og því miður fóru þá mörg góð skip fyrir lítið.

Vonandi tekst okkur að standa saman að því að sett verði á stofn myndarlegt sjóminjasafn með gömlum skipum og sædýrasafni auðvitað til þess að sýna fólki hver uppruni okkar Íslendinga er og hvað það var sem breytti bæ í borg og gerði okkur lífið svo gott sem það er nú.