Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 18:40:40 (7625)

2004-05-04 18:40:40# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. meiri hluta GHj
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[18:40]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um Þróunarsjóð sjávarútvegsins en vil byrja á að fara aðeins yfir það sem Jóhann Ársælsson nefndi.

Í lögum um stjórn fiskveiða segir, með leyfi forseta:

,,Ráðherra skal ákvarða veiðigjald komandi fiskveiðiárs samkvæmt þessari grein fyrir 15. júlí ár hvert.``

Þetta veiðigjald er lagt á miðað við næsta fiskveiðiár, 1. september. Þegar búið er að leggja það á verður það alltaf lagt á. En aftur á móti verður þriðjungur þess greiddur á þessu ári. Veiðigjaldið er lagt á og tekjufært á þessu ári. Þetta er alveg nákvæmlega eins og við sveitarstjórnarmenn þekkjum, að við leggjum á fasteignagjöld í byrjun árs. Þau eru síðan innheimt allt árið og sumir ná ekki að greiða greiðslurnar sínar fyrr en árið á eftir en það er búið að tekjufæra þetta allt saman. Síðan er þetta fært í efnahagsreikninginn á móti. Ég sé því ekki ástæðu til að fjalla meira um það miðað við það hvernig ég túlka þessa útfærslu.

Mér finnst vegið að starfsmönnum sjútvrn. með því að segja að menn séu að halda einhverju leyndu. 30. apríl sl. er viðmiðunardagsetningin. Það var á föstudaginn var. Síðan eru liðnir tveir virkir dagar og við höfum varið öðrum deginum í að ræða um þessi mál. Menn hafa mikla ofurtrú á starfsmönnum ráðuneytisins ef þeir telja að þeir geti verið tilbúnir með allar lokatölur um veiðigjald á tveimur dögum. Mér finnst það mjög undarleg krafa en við skulum taka málið upp í sjútvn. og fá upplýsingar úr ráðuneytinu um hvernig menn sjá fyrir sér að þetta gjald verði lagt á.

Varðandi töluna sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi, að ég hefði nefnt aflaverðmæti upp á 78 milljarða kr. Það er rétt, en þá ætluðu menn að ná í 1.370 millj. kr. Síðan koma inn í áhrif af gengishreyfingum, aflasamsetningu og kostnaðarhækkunum, þannig að þeir reikna með að þetta verði 1,1--1,2 milljarðar kr. Þar er breytingin. Þá er það í samræmi við 68 milljarðana. Þá erum við á svipuðu róli í útreikningum.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir góða umræðu um þessi mál. Ég legg til að málinu verði vísað til 3. umr.