Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 18:43:19 (7626)

2004-05-04 18:43:19# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með seinni ræðu hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar. Ég bjóst við að hann mundi reyna að svara einhverju af því sem fram kom í ræðum okkar sem talað höfum í málinu fyrr í dag.

Þar sem ég hef stuttan tíma langar mig að spyrja hv. þm. beint um álit hans á beiðni LÍÚ um að fá til sín það sem eftir verður í þróunarsjóði þegar búið verður að gera málið upp. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna beint í umsögn LÍÚ. Þar segir:

,,Við styðjum að sjálfsögðu þá breytingu sem gert er ráð fyrir með frumvarpinu en leggjum jafnframt til að því verði breytt í þá veru að sjóðurinn verði gerður upp og lagður niður hið fyrsta.

Eignir sjóðsins eru fyrst og fremst bankainnstæður og skuldabréf og skuldir hans að stærstum hluta skuldabréf og lán ríkissjóðs.

Við blasir að unnt er að gera sjóðinn upp nú þegar og í því sambandi virðist nærtækast að gera skuldir sjóðsins við ríkissjóð upp með afhendingu eigna hans á móti skuldum. Mikilvægt er að þetta gerist sem fyrst, enda er umtalsverður kostnaður á rekstri sjóðsins sem unnt er að spara.``

Síðan kemur efnisgrein sem ég spyr hv. þm. Guðjón Hjörleifsson beint um hans álit á, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þar sem ljóst er að innheimt hafa verið gjöld umfram skuldbindingar sjóðsins er þess farið á leit að við uppgjör á sjóðnum verði það sem umfram verður endurgreitt til þeirra sem hafa greitt til sjóðsins á þessu fiskveiðiári í réttu hlutfalli við greiðslur þeirra.``

Eins og við rifjuðum upp nokkrir þingmenn í umræðunum í dag þá eru lögin skýr í þessu efni. Þar segir að þegar sjóðurinn verði lagður niður árið 2009 þá eigi fjármunir hans að renna til hafrannsókna. Menn hafa rætt aðrar hugmyndir og viðrað þær og hlýtur þá að þurfa koma til lagasetningar ef breyta á ákvæðinu um í hvað sjóðurinn á að fara. En mig langar, virðulegi forseti, að fá svar hæstv. formanns sjútvn. Guðjóns Hjörleifssonar við því hvort hann taki undir þessa kröfu LÍÚ sem fram kemur í umsögn þeirra.