2004-05-05 13:35:01# 130. lþ. 110.91 fundur 539#B ábendingar umboðsmanns Alþingis um skipun í embætti dómara við Hæstarétt# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Embættisfærsla hæstv. dómsmrh. Björns Bjarnasonar þegar hann lagði tillögu fyrir forseta Íslands um skipun hæstaréttardómara í ágústmánuði sl. fær nú hverja falleinkunnina á fætur annarri. Fyrir nokkru féll úrskurður kærunefndar jafnréttismála á þá leið að dómsmrh. hefði brotið jafnréttislög þegar gengið var fram hjá hæfari eða a.m.k. jafnhæfri konu og tækifærið þar með ekki notað til að laga kynjahlutföll í réttinum. Fræg urðu að endemum ummæli hæstv. ráðherra af því tilefni um jafnréttislög, þ.e. að þau væru barn síns tíma og bar væntanlega að skilja svo að ekki þyrfti að taka ákvæði þeirra mjög alvarlega.

Nú kemst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að hæstv. dómsmrh. hafi sömuleiðis farið á svig við eða brotið ekki ákvæði einna heldur tvennra annarra laga, þ.e. ákvæði laga nr. 15/1998, um dómstóla, einkum ákvæði 4. gr. þeirra laga, og ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá fer maður að spyrja, virðulegur forseti, er ekki allt þegar þrennt er? Er það ekki að verða nóg að einn hæstv. ráðherra sé sakaður um það af aðilum af þessu tagi, þ.e. umboðsmanni Alþingis og kærunefnd jafnréttismála, að ganga á svig við ákvæði laga? Hlýtur ekki að verða að taka málið til rækilegrar skoðunar? Það verður Alþingi bersýnilega að gera a.m.k. tvíþætt. Annars vegar þessi embættisfærsla ráðherrans, sem ber að svara fyrir verk sín í þinginu, og hins vegar þau tilmæli umboðsmanns að taka til skoðunar þær aðferðir sem notaðar eru við skipun hæstaréttardómara og breyta þeim. Því máli hefur margoft verið hreyft á Alþingi. Ég er hér með frv. um að Alþingi þurfi sjálft að staðfesta skipun hæstaréttardómara sem flutt var 1993 og því hefur reyndar oftar verið hreyft með sama hætti í þinginu. (Forseti hringir.) Mér finnst líka, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmrh. eigi að koma og gera Alþingi grein fyrir málinu af sinni hálfu.