2004-05-05 13:37:30# 130. lþ. 110.91 fundur 539#B ábendingar umboðsmanns Alþingis um skipun í embætti dómara við Hæstarétt# (aths. um störf þingsins), ISG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Ég tel fulla ástæðu til fyrir Alþingi að ræða það mál sem hér hefur verið vakin athygli á, þ.e. þá álitsgerð frá umboðsmanni Alþingis sem nú liggur fyrir.

Við höfum horft upp á það í þessu máli eins og öðrum að ríkisstjórnin er ber að því að beita geðþóttavaldi og fótumtroða allar grundvallarhugmyndir um að umgangast vald með varfærni og ég ætla ekki að rekja þau mál öll sem komið hafa til kasta þingsins bara á þessu ári.

Núna liggja fyrir tvær álitsgerðir frá tveimur mismunandi stjórnsýslustofnunum sem segja eins skýrt og hægt er að málefnaleg sjónarmið hafi ekki ráðið við skipun dómara í Hæstarétt. Hæstv. dómsmrh. sagði í ágúst sl. að hann hefði lagt málefnaleg sjónarmið til grundvallar skipuninni og þess vegna væri ákvörðun hans yfir gagnrýni hafin. Ákvörðun hans væri yfir gagnrýni hafin sagði hæstv. dómsmrh. í viðtali við fjölmiðla.

Það er nú helst. Hér eru komin tvö álit, annars vegar frá kærunefnd jafnréttismála og hins vegar frá umboðsmanni Alþingis sem eru áfellisdómur yfir embættisfærslu ráðherrans. Þau eru áfellisdómur yfir embættisfærslunni. Hann hefur kastað til höndunum við mat á hæfni. Hann hefur brugðist almannahagsmunum í embættisfærslunni. Hann hefur orðið ber að því að beita geðþóttavaldi og hann hefur ekki gætt að virðingu og sjálfstæði Hæstaréttar.

Eins og kom fram hjá einum ágætum umsækjanda í gær hefði þetta í ýmsum siðmenntuðum löndum verið talin næg ástæða til þess að ráðherra segði af sér. Ég er ekki viss um að það gerist hér. Ég held að menn ákveði bara að sitja af sér þessa dembu eins og allar aðrar, það muni stytta upp að lokum og menn sitji bara áfram með sínar geðþóttaákvarðanir í sínum ráðherrastólum vegna þess að valdið er sætt. Það er sætleiki valdsins sem skiptir máli. En ég vil segja það og koma þeim skilaboðum til ráðherra að nú ætti hann að sjá sóma sinn í því að segja af sér. Nú ætti hann að sjá sóma sinn í því að hugleiða það að segja af sér vegna þessarar embættisfærslu.