2004-05-05 13:44:36# 130. lþ. 110.91 fundur 539#B ábendingar umboðsmanns Alþingis um skipun í embætti dómara við Hæstarétt# (aths. um störf þingsins), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Það er mjög óvenjuleg og sértæk staða sem Alþingi stendur frammi fyrir, að sami ráðherrann skuli fá á sig fyrst úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að þetta hafi verið brot á þeim lögum og svo nú úrskurð umboðsmanns Alþingis um að hæstv. ráðherra hafi farið á svig bæði við lög um dómstóla og stjórnsýslulög. Það er þeim mun alvarlegra að hér er um að ræða ráðherra sem fer með framkvæmdarvald dómsmála í landinu og það ætti a.m.k. ekki að reiknast hæstv. ráðherra til tekna í fordæmisgerð sinni.

Mér finnst það svo alvarlegt mál sem hér er á ferðinni að ég vil inna hæstv. utanrrh. og oddvita annars stjórnarflokksins og væntanlegan forsrh. ef af verður sem að líkum er hvort málið hafi verið tekið upp í ríkisstjórninni og rætt, hvort það eigi bara að vera hin viðtekna regla og ráðherrar eigi að fá að komast upp með slíkt án þess að ríkisstjórnin fari ofan í málið og kanni hvort ástæða sé til að grípa inn í því að hæstv. ráðherra starfar náttúrlega á ábyrgð viðkomandi ríkisstjórnar. Það væri sennilega rétt að fá hæstv. félmrh. sem fer með vinnuréttinn og hefur reynslu af því hvernig á að taka á embættismönnum sem að hans mati brjóta eða fara á svig við lög við ráðningar fólks. Hann væri ekki í neinum vanda hvernig hann ætti að bregðast við. Það væri fróðlegt að heyra hvernig hæstv. félmrh. tæki á málum hæstv. dómsmrh. í ríkisstjórn þegar þau mál væru rædd og rætt um hvernig ríkisstjórnin ætti að bregðast við. (Forseti hringir.) Mér finnst að hæstv. utanrrh. ætti að upplýsa okkur um hvernig ríkisstjórnin hafi tekið á málinu.