Fríverslunarsamningur við Kanada

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:03:42 (7648)

2004-05-05 14:03:42# 130. lþ. 110.1 fundur 771. mál: #A fríverslunarsamningur við Kanada# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Rétt til að bæta í þessa umræðu út af því sem hæstv. utanrrh. sagði áðan.

Þingmannanefnd EFTA hefur haft samband við þingmenn í Kanada og reynt að aðstoða við að koma þessu máli í gang. Aðstæður í Kanada eru slíkar að það er nýbúið að skipta um forsrh., ríkisstjórn og nefndir. Utanríkisviðskiptanefnd þingsins er undirnefnd utanríkismálanefndar þingsins. Þetta hefur allt verið mjög þungt í vöfum og erfitt eftir því. Eins og hæstv. utanrrh. sagði standa fyrir dyrum kosningar í Kanada, jafnvel á næstunni, þannig að það hefur verið mjög erfitt að ná sambandi við Kanada. Þeir hjá EFTA kvarta mikið yfir því, ekki bara þingmannanefndir heldur almennt og meðal annarra þjóða, að illa gangi að ná sambandi við Kanada.

Ég tek undir að okkur Íslendingum er mjög mikilvægt að þessi samningur náist.