Fríverslunarsamningur við Kanada

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:04:54 (7649)

2004-05-05 14:04:54# 130. lþ. 110.1 fundur 771. mál: #A fríverslunarsamningur við Kanada# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra og þeirra sem hafa tekið þátt í umræðu um þessa fyrirspurn. Ég tek undir að þetta er afskaplega mikilvægt mál. Þess vegna finnst mér áhugavert að heyra svar hæstv. ráðherra um mögulegan tvíhliða samning okkar og Kanada. Ég vil líka spyrja hvort Noregur sé ekki hættur að styrkja skipaiðnaðinn og hvort Kanada hangi þá virkilega á því núna, einhverjum árum síðar, að skipaiðnaðurinn hafi fengið styrki og standi því þar með fyrir þrifum að svona samningur verði gerður.

Þar sem hæstv. utanrrh. nefndi sjávarafurðir sem flokkast undir iðnaðarvörur í Kanada langar mig líka að spyrja hæstv. utanrrh. hvað annað sé mikilvægt fyrir okkur í viðskiptum við Kanada. Ég bryddaði upp á því á sínum tíma, eftir að hafa þá verið nýlega í heimsókn á Ísafirði og heimsótt fyrirtæki sem var með mikla, og er vonandi enn þá, starfsemi í Kanada. Þeir fluttu út vélbúnað til að nota í sjávarútvegi, höfðu sett upp nokkrar rækjuverksmiðjur í Kanada og lýstu því hvað viðskiptaumhverfið væri þeim erfitt og kerfið þungt og það mundi gjörbreyta stöðunni fyrir svona fyrirtæki ef fríverslunarsamningur næðist. Það er mjög mikilvægt að við fylgjumst með því hvaða viðskiptamöguleikar eru þarna, hvort þeir eru í húfi og hverjir gætu haft áhrif á það hvort Ísland ætti að skoða það að reyna að gera tvíhliða samning ef það væri í myndinni.