Sprengjuleit

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:08:37 (7651)

2004-05-05 14:08:37# 130. lþ. 110.2 fundur 911. mál: #A sprengjuleit# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Frú forseti. Ung börn að leik fundu virka sprengju á leiksvæði sínu 12. apríl 2003 og léku sér með hana um stund, m.a. prófuðu þau að henda henni í stein til að athuga hvort hún spryngi. Eftir að hafa leikið sér með sprengjuna um stund fengu þau bakþanka og settu hana í poll til að koma í veg fyrir að hún mundi springa. Mesta mildi var að ekki fór verr.

Maður gæti haldið að hér væri um að ræða frétt frá einhverju ófriðarsvæðanna í heiminum. Svo er þó ekki því að hér er um að ræða frétt frá Suðurnesjum á síðasta ári og það skrýtna er að eftir að þessi atburður átti sér stað hefur afskaplega lítið verið gert til að tryggja að svona hlutir komi ekki fyrir aftur.

Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli notaði um 10 ára skeið svæðið við Háabjalla og Snorrastaðatjarnir á Vogaheiði í Vatnsleysustrandarhreppi sem skotæfingasvæði. Ekki hefur nýlega farið fram nein skipuleg leit með nýjustu tækni á þessu svæði að sprengjum þótt vitað sé að mikið sé af þeim þar. Sprengjur þessar finnast á yfirborði og talið er að um sé að ræða 15 ferkílómetra svæði þar sem mestu líkurnar séu á að finna þennan ófögnuð.

Í tveimur yfirborðsleitum sem framkvæmdar voru 1986 og 1996 fundust yfir 600 sprengjur sem var eytt. Ástæðan fyrir leitinni 1996 var sú að barn varnarliðsmanns hafði á sama hátt og ég lýsti í upphafi fundið sprengju í ferð með fjölskyldu sinni á svæðinu sem varð til þess að varnarliðið setti fjölda manns í að leita að sprengjum á yfirborði.

Sprengjan sem íslensku börnin fundu í apríl 2003 innihélt tvö kg af TNT og var hönnuð þannig að ef hún spryngi færu sprengjubrot í allar áttir og lífshættulegt væri að vera innan 300 m radíusar frá sprengjusvæðinu. Sérfræðingar telja nauðsynlegt að ráðist verði í gerð áætlunar um bæði yfirborðshreinsun og einnig hreinsun með nýjustu sprengjuleitartækni til að lágmarka þá hættu sem getur orðið ef almennir borgarar labba um og finna sprengjur á svæðinu. Lengi hefur verið reynt að fá íslenska ríkið til að taka á í þessu efni því að eftir því sem best er vitað hefur íslenska ríkið leyst varnarliðið undan allri ábyrgð á umræddu svæði. Nýlega tókst að fá merkingar á svæðinu þar sem varað er við því að þarna gætu verið virkar sprengjur og er það til bóta.

Þegar maður les hins vegar og sér að íslenska ríkið hefur fjármuni til þess að ráðast í sprengjuleit í Írak er ekki undarlegt þó að maður spyrji hæstv. utanrrh. hve miklum fjármunum hafi verið varið í sprengjuleit í Írak og eins á Íslandi, hvort ráðherrar telji ekki fulla þörf á því að efla sprengjuleit og eyðingu hér á þessu landi okkar og hver beri ábyrgð á sprengjuleit og eyðingu á fyrrum athafnasvæðum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.