Sprengjuleit

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:20:47 (7656)

2004-05-05 14:20:47# 130. lþ. 110.2 fundur 911. mál: #A sprengjuleit# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Fram kom að við hefðum sett 9 millj. í sprengjuleit og -eyðingu í Írak og ætla ég ekki að sjá eftir þeim fjármunum.

Aftur á móti fannst mér að hæstv. utanrrh. skáskyti sér undan því að svara beint hver bæri ábyrgð á því að leita uppi sprengjur og eyða þeim á þessu svæði. Eftir því sem ég best veit telur Landhelgisgæslan á því fulla þörf að setja fram langtímaáætlun um það hvernig eigi að fara að því að leita að sprengjum á þessu svæði og eyða þeim. En til þess þarf fjármuni. Þeir fjármunir eru ekki fyrir hendi í dag og þessir sprengjusérfræðingar sem eru ákaflega færir hjá Landhelgisgæslunni eyða meira að segja stundum frítíma sínum í að leita þarna að sprengjum vegna þess að þeir hafa áhyggjur af þessu, ekki síður en við sem búum í Vatnsleysustrandarhreppi. Það hlýtur að vera áhyggjuefni ef á svæði sem liggur svona nálægt þorpinu og Reykjanesbrautinni og börn stunda leiki á geta verið virkar sprengjur. Við erum heldur ekki að tala um neitt smávegis. Við erum að tala um alvörusprengjur sem þarna hafa fundist. Þetta eru sprengjur sem geta valdið dauða í fleiri hundruð metra radíus frá þeim stað sem þær springa á. Ég held að við hljótum að kalla eftir ákveðnari svörum frá hæstv. utanrrh. um það hvort hann hyggist reyna að tryggja til þess einhverja fjármuni sem sérstaklega verði eyrnamerktir í það að leita að sprengjum og eyða þeim á þessu svæði, fjármunum sem duga kannski til að framkvæma eitthvað af þeim hugmyndum sem sérfræðingar í sprengjuleit á vegum Landhelgisgæslunnar hafa sett fram. Hingað til hefur ráðuneytið ekki mikið hlustað á þá, að því er virðist. Við verðum með einhverjum hætti að ná því að koma ráðuneytismönnum upp úr því meðvitundarleysi sem þeir eru í í þessu máli.