Tæknimenntun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:25:28 (7658)

2004-05-05 14:25:28# 130. lþ. 110.3 fundur 617. mál: #A tæknimenntun# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KJúl
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir):

Virðulegi forseti. Áður hef ég staðið í þessum ræðustól og fjallað um málefni tæknimenntunar á Íslandi og þá óhjákvæmilega Tækniháskóla Íslands sem er ungur háskóli. Nú er um 11/2 ár síðan hann varð til úr gamla Tækniskólanum. Ég tel að það hafi verið mikið gæfuspor þegar sá atburður varð því að við stöndum öðrum þjóðum langt að baki þegar kemur að verkfræði- og tæknimenntuðu fólki.

Þörfin fyrir tæknimenntun er mikil og er atvinnulífið í brýnni þörf fyrir fólk með slíka menntun. Samtök iðnaðarins hafa margoft bent á þetta og hafa lengi beitt sér fyrir því að vekja athygli á þessu, enda er skortur á tæknimenntun oft og tíðum farin að há útrás íslensks iðnaðar.

Árið 2000 leiddu niðurstöður könnunar samtakanna í ljós að fyrirtækin í iðnaði töldu nauðsynlegt að fjöldi tækni- og verkfræðimenntaðra ykist um 80% á árunum 2000--2005. Þessari eftirspurn hefur ekki enn verið svarað með nægjanlega afgerandi hætti. Hlutfall tækni- og verkfræðimenntaðs fólks á Íslandi er það lægsta á Norðurlöndum og má þar nefna sem dæmi að þetta hlutfall hefur verið hér meira en helmingi lægra en í Finnlandi. Þar hefur verið lögð mikil áhersla á uppbyggingu tæknimenntunar undanfarinn áratug og hefur það gert mikið fyrir efnahagslíf Finnlands eins og dæmin sanna.

Virðulegi forseti. Það jákvæða sem gerst hefur í þessum efnum samhliða aukinni eftirspurn eftir tæknimenntuðu starfsfólki er að eftirspurnin eftir náminu sjálfu hefur vaxið gríðarlega, enda eru neytendur menntakerfisins skynsamir. Þeir vita hvar tækifærin liggja og sækja sér yfirleitt heppilega menntun á hverjum tíma.

Síðasta vor þurfti Tækniháskólinn að vísa frá 140 af 200 umsækjendum í tækninám vegna ónógs fjármagns. Þáverandi hæstv. menntmrh. greip þá til þess ráðs að heimila skólanum inntöku 50 nemenda til viðbótar og hófu þeir nám þar síðasta haust. Var það vel. Það sem gerðist þó var að ekki fylgdi þessum nemendum fjármagn á fjárlögum sem þó hafði verið samþykkt að teknir yrðu inn. Það fundust mér merkileg vinnubrögð, að samþykkja heimild fyrir fjölgun nemenda án þess að henni fylgdi fjármagn. Ég tel mikilvægt að hæstv. menntmrh. hugi að því að tryggja betur rekstrargrunn Tækniháskólans svo að hægt verði og mögulegt að fjölga þar nemendum allverulega á næstu árum.

Í ljósi þessa spyr ég hæstv. ráðherra hvort það sé til skoðunar að rýmka heimildir Tækniháskólans til að taka inn nemendur til að svara eftirspurn nemenda og atvinnulífs eftir tæknimenntun auk þes sem ég spyr hversu margir hafi lokið tæknimenntun á háskólastigi á Íslandi.