Tæknimenntun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:32:44 (7661)

2004-05-05 14:32:44# 130. lþ. 110.3 fundur 617. mál: #A tæknimenntun# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Hér er hreyft afskaplega mikilvægu máli. Nauðsynlegt er að líta á verk- og tæknimenntun í heild þegar við horfum til Tækniháskólans. Það er ekki bara þörf á því, þótt hún sé mikil, að rýmka heimildir til inntöku í Tækniháskólann nemenda vegna heldur líka vegna þess að það er þörf fyrir slíka menntun í atvinnulífinu. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tók góð dæmi varðandi Finnana og ég vil spyrja hæstv. menntmrh. sem ég veit að átti ferð um Finnland fyrir nokkru hvort ekki væri til athugunar í ráðuneytinu að horfa örlítið til Finna varðandi verk- og tæknimenntun. Væri ekki ráð að endurskipuleggja það nám í heild sinni og horfa til Finna í því tilliti?

Það er dapurlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa metnaðarfyllri áform á lofti varðandi háskólanám almennt, ekki síst tæknimenntun sem er augljóst mál, til framtíðar litið, að verður sú menntun sem við þurfum hvað mest á að halda. Því miður stöndum við ekki nægjanlega vel að vígi. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti tjáð okkur eitthvað um þau áform sem eru fram undan varðandi verk- og tæknimenntun og þá sérstaklega ef horft væri til Finnlands í því sambandi.