Skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:45:19 (7666)

2004-05-05 14:45:19# 130. lþ. 110.4 fundur 624. mál: #A skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., AKG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. menntmrh. að skólameistarar eru sammála um að það eigi að hafa sem samræmdastar reglur við úthlutun fjár til skólanna. Síðasta leiðréttingin sem gerð var á reiknilíkaninu var gerð til þess að rétta hlut verknámsskóla sem höfðu búið við afar slæman kost en sú leiðrétting var gerð á kostnað bóknámsskóla og nú eru hinir hefðbundnu bóknámsskólar sem áður undu sáttir við sitt í verri málum.

Nú er líka nýbúið að gera breytingar á húsaleigusamningum varðandi heimavistir. Sú breyting gerir það að verkum að t.d. við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er komin 10 millj. kr. skekkja í fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Það er auðvitað algjörlega óviðunandi.

Staðan er einfaldlega sú að stærstu skólarnir geta nokkuð vel við unað og litlu skólarnir líka, minnstu skólarnir, vegna þess að þeir fá sértæka aðstoð. Meðalstóru skólarnir eru hins vegar í afar vondum málum og þessir meðalstóru skólar eru ákaflega mikilvægir fyrir starfsumhverfi sitt og nánasta umhverfi.