Skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:46:39 (7667)

2004-05-05 14:46:39# 130. lþ. 110.4 fundur 624. mál: #A skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það er hægt að taka undir það með hæstv. ráðherra að hlutlægan grundvöll þarf að vissu leyti en það er mjög nauðsynlegt að taka ákveðna þætti út úr reiknilíkaninu, festa þá öðruvísi og koma þannig í veg fyrir að fótunum verði kippt undan starfsgrundvelli ákveðinna skóla eins og núverandi reiknilíkan gerir.

Títtnefndur Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra er í ákaflega erfiðum málum bara út af fyrirkomulagi reiknilíkansins og stjórnmálamenn mega ekki láta pikkfesta sig svo í reiknilíkanapólitíkinni, svo leiðinleg sem hún er, að þeir geti ekki tekið tillit til breytanna og ákveðinna þátta sem er ekki hægt að stýra í reiknilíkani. Það er prýðilegt að ákveða það að nokkru leyti og láta nemendafjölda stýra hluta fjárveitinga til skólanna. Að öðru leyti er það mjög gallað og það verður að endurskoða reiknilíkanið, bæði með tilliti til þessa og iðn- og verknámsins í heild sinni.