Skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:51:18 (7670)

2004-05-05 14:51:18# 130. lþ. 110.4 fundur 624. mál: #A skipting fjárveitinga milli framhaldsskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi misskilið mig en sé ekki að reyna að snúa út úr orðum mínum þegar ég tala um endurskoðun. Það er einfaldlega þannig í eðli sínu að þegar hlutir eru endurskoðaðir með því að taka einn og einn þátt út úr ákveðnu líkani er verið að gera málið flóknara. Annað mátti greina á mæli þeirra þingmanna sem komu inn í þessa umræðu áðan, bæði hv. fyrirspyrjanda og fleiri þingmanna.

Það er annað að taka bara þann þátt sem menn hafa verið að tala um, þ.e. grunnrekstrarliðina. Ef eingöngu þeir eru teknir út kann að vera að það verði ekki flókið í sjálfu sér. Undir eins og menn byrja að taka einn og einn lið út úr almennu hlutlægu líkani erum við bara komin með undantekningar ofan á undantekningar og undanþágur ofan á undanþágur. Þá er spurningin hvað stendur eftir af líkani sem við viljum kalla hlutlægt og reyna að miða við.

Ég veit að hv. þingmönnum er ekki vel við orðið íhaldssemi. Ég held þó að hún sé góð í þessu samhengi, við verðum að gæta ákveðinnar íhaldssemi en vera þó óhrædd við það að skoða reiknilíkanið með tilliti til þess umhverfis og þeirra þarfa sem viðkomandi framhaldsskólar standa frammi fyrir.

Ég held að við verðum að halda vel utan um þessa hugmynd sem reiknilíkanið er. Það er meira en virðingarverð viðleitni stjórnvalda í samvinnu við skólameistara að koma böndum yfir fjármál framhaldsskólanna. Við verðum að halda áfram að vinna í þeirri sátt sem við höfum verið að vinna reiknilíkanið í en að sjálfsögðu munum við halda áfram eins og við höfum gert í ráðuneytinu að leita eftir ráðum hjá þeim sem málið varðar og þekkja það og halda áfram þeirri vinnu sem við nú þegar erum byrjuð á í ráðuneytinu, frú forseti.