Hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:20:32 (7682)

2004-05-05 15:20:32# 130. lþ. 110.8 fundur 778. mál: #A hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi Jónína Bjartmarz spyr að því hversu stór hluti námsmanna hefur lent í vanskilum með þeim afleiðingum að ábyrgðarmenn hafi þurft að greiða þau, sundurliðað fyrir síðustu 10 ár. Hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, LÍN, hefur ekki verið haldið utan um vanskil námslána þar sem ábyrgðarmenn hafa þurft að greiða af lánunum. Það er heldur ekki hægt þar sem útilokað er að segja til um hver greiðandinn er hverju sinni.

Eins og innheimtunni er nú háttað fá ábyrgðarmenn afrit af ítrekunum 40 dögum eftir gjalddaga og lokaviðvörun 15 dögum síðar þar sem þeim ásamt lántakanda er tilkynnt að afborgun verði send í lögmannsinnheimtu 10. næsta mánaðar hafi hún ekki verið greidd fyrir þann tíma. Um 15% lántakenda eru búsett erlendis að námi loknu. Í þeim tilvikum eru það því oft umboðsmenn þeirra og/eða ábyrgðarmenn sem annast afborgun lánanna sem millgöngumenn en ekki endilega sem raunverulegir greiðendur.

Nokkur dæmi eru um það, frú forseti, að ábyrgðarmenn komi í veg fyrir vanskil námslána með því að fá greiðslutilkynningar sendar beint til sín og það má kannski segja að það sé ákveðið aðhald eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á áðan. Rúmlega 4% afborgana enda í innheimtu hjá lögmönnum. Ábyrgðarmennirnir eiga þá oft mjög stóran þátt í því að koma lánunum í skil, ýmist með því að greiða sjálfir hluta af skuldinni en oft og ekki síður með því að hjálpa lántakendum sjálfum að fá vanskilunum skuldbreytt, virðulegi forseti.

Ég vil einnig geta þess sérstaklega að eins og við vitum og við sem þekkjum stjórnarsáttmála þessarar ágætu ríkisstjórnar mjög vel, og fleiri góðir þingmenn ættu að kynna sér til þess að fræðast eitthvað, að endurskoðun á námslánakerfinu og lögunum um LÍN stendur fyrir dyrum og vonast ég til að hægt verði að ljúka þeirri endurskoðun í sumar og hugsanlega á haustdögum. Ég tel því eðlilegt að menn taki upp m.a. þessa umræðu í tengslum við þá endurskoðun hvort við eigum að viðhalda áfram því ábyrgðarmannakerfi sem við höfum byggt upp eða hvort einhverra breytinga sé þörf á því kerfi.