Hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:28:57 (7685)

2004-05-05 15:28:57# 130. lþ. 110.8 fundur 778. mál: #A hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin þó að þau hafi kannski ekki verið mjög upplýsandi vegna þess hversu takmörkuð gögn liggja fyrir. Ég vil hins vegar segja um málið að hæstv. menntmrh. getur ekki þurft að bíða eftir neinum niðurstöðum einhverrar nefndar til að lýsa vilja sínum til ábyrgðarmannakerfis LÍN. Það hefur verið ógæfa íslensku þjóðarinnar að vefja sig inn í sjálfskuldarábyrgðarkerfi sem hefur orðið mörgum fjölskyldum og mörgum heimilum þungbært þegar til hefur átt að taka og hefur varnað því og hrakið frá námi fjölmarga einstaklinga og einkanlega þá sem höllustum fæti standa. Og ég hef sem formaður félagsmálaráðs Reykjavíkur mikla reynslu af því að fá til mín fólk sem ekki á höfði sínu að halla að fjölskyldu til að mynda, hefur verið svipt fjölskyldu sinni af barnaverndarástæðum til að mynda, og hefur orðið að hrekjast frá námi en þyrfti þess þó helst með. Ég hvet þess vegna hæstv. menntmrh. til að lýsa einarðlega yfir afstöðu (Forseti hringir.) sinni til þess hvort hún vilji ekki beita sér fyrir því að afnema þetta óréttláta ábyrgðarmannakerfi.