Hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:34:00 (7688)

2004-05-05 15:34:00# 130. lþ. 110.8 fundur 778. mál: #A hlutur ábyrgðarmanna í endurgreiðslum námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. LÍN er félagslegur jöfnunarsjóður og sjóðurinn stendur sig afspyrnuvel og kemur vel út í samanburði við aðrar þjóðir og það er ekki síst m.a. hv. þm. Gunnari Birgissyni að þakka að svo er því annars værum við með lánasjóð sem væri á hvínandi kúpunni og væntanlega engan lánasjóð ef ekki hefði verið farið í þær björgunaraðgerðir sem farið var í á árunum 1991--1995. Í þær björgunaraðgerðir einhenti hv. þm. Gunnar Birgisson sér ásamt fleiri góðum mönnum og konum. Við skulum hafa það á hreinu.

LÍN er félagslegur jöfnunarsjóður og það verður áfram okkar takmark að svo sé. Ekkert er óumbreytanlegt og m.a. þess vegna erum við að fara í endurskoðun á lánasjóðnum. Ábendingum þessum er búið að koma á framfæri, m.a. við þann sem kemur til með að stýra endurskoðuninni á löggjöfinni, sem hv. þm. Gunnar Birgisson kemur til með að leiða því enginn er betri til þess að leiða það starf en hann að mínu mati því að þekkingin er margföld (Gripið fram í.) miðað við þá sem er nú þegar til staðar í þingsalnum, virðulegi forseti.

En það var athyglisvert að mér fannst eins og ég greindi ákveðinn ágreining hjá hv. þingmönnum Samf., að einn sagðist vera tilbúinn til að hafa sjálfskuldarábyrgð meðal námsmanna eða lántakenda hjá LÍN meðan annar var ekki eins reiðubúinn til að taka undir það hjal.