Brottfall nemenda úr framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:48:45 (7695)

2004-05-05 15:48:45# 130. lþ. 110.7 fundur 777. mál: #A brottfall nemenda úr framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:48]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Það er dýrt bæði peningalega og þjóðfélagslega, og ég tala ekki um félagslega, að nemendur falla frá námi, sem þeir hafa ætlað sér að stunda hver svo sem ástæðan er.

Í síðustu byggðaáætlun sem nú er í gildi var lögð áhersla á það stefnumið að hvarvetna í heimabyggð yrði reynt að koma því kerfi á að nemendur gætu stundað nám sitt, a.m.k. til 18 ára aldurs. Með því þarf ekki að senda ungt fólk úr byggðunum til náms í framhaldsskóla fyrr en eftir þann tíma.

Þau landsvæði sem koma hvað harðast niður í brottfalli eru einmitt þau sem verða að senda nemendur sína burt til framhaldsskólanámsins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður því átaki sem átti að gera samkvæmt byggðaáætlun, um að koma á samfelldu námi heima fyrir til 18 ára aldurs?