Brottfall nemenda úr framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:50:11 (7696)

2004-05-05 15:50:11# 130. lþ. 110.7 fundur 777. mál: #A brottfall nemenda úr framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JBjart
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir ágætt svar. Í svarinu kom fram hvað segir í lögunum um framhaldsskóla og í aðalnámskrá framhaldsskóla. En mér sýnist, af þeim tölum sem ég fór yfir um brottfallið úr skýrslu um styttingu náms til stúdentsprófs sem ég vísaði til, að það sé kannski sýnt að þessar fyrirætlanir í lögunum og aðalnámskránni skili tilætluðum árangri og einhverju sé ábótavant.

Þegar ég var, frú forseti, að tala um stóraukna námsráðgjöf var ég fyrst og fremst að tala um grunnskólann. Mér sýnast niðurstöður þeirra Kristjönu og Jóns Torfa fyrst og fremst segja að þar sé verið að aðstoða nemendur með því að upplýsa þá, kynna þeim mismunandi nám og mismunandi starf og aðstoða þá við rétt val sem getur líka orðið til að auka áhuga þeirra á námi almennt, ef þau vita hvert þau stefna.

Eins og hv. þm. Hjálmar Árnason er óþreytandi að benda á, ásamt ýmsum öðrum hv. þingmönnum, erum við með öfugt hlutfall hér á landi, að 70% allra fara í bóknámið á móti 30% í eitthvert annað nám, sem er alveg öfugt við hlutfallið í löndunum í kringum okkur, á hinum Norðurlöndunum. Ég held að þetta skipti óskaplega miklu máli. Mig langar að beina því til hæstv. ráðherra að í endurskoðun á grunnskólalögunum er þetta skoðað líka. Ef ég man rétt eru námsráðgjafarnefndir hvergi nefndar í aðalnámskrá grunnskóla ef þær hafa eitthvert hlutverk. Þær eru við suma skóla og vinna mjög mismunandi vinnu með mismunandi aldurshópa. Mig langar sérstaklega að biðja hæstv. ráðherra að horfa til þess sem Danir hafa verið að gera á þessu sviði. Þeir settu sér fyrir einhverjum árum markmið um að fyrir tiltekið árabil skyldi tryggt að 95% allra nemenda sem klára grunnskóla ljúki framhaldsnámi af einhverju tagi. Stór liður í því var stórefld náms- og starfsráðgjöf í skólum með aðkomu bæði atvinnulífs og foreldra.