Forvarnastarf í áfengismálum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 16:08:19 (7704)

2004-05-05 16:08:19# 130. lþ. 110.10 fundur 684. mál: #A forvarnastarf í áfengismálum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um málið og ég mun taka mið af þeim ábendingum sem komið hafa fram. Ég tel að þessi mál þurfi umfjöllun. Forstöðumenn Lýðheilsustofnunar hafa rætt þessi mál við mig. Þeir hafa lýst áhyggjum af vaxandi áfengisneyslu landsmanna og því að landsmenn séu farnir að nota áfengi sem stressmeðal í vaxandi mæli. Ég tel ástæðu til að fara yfir löggjöfina en hins vegar er ekkert einfalt mál að búa til úr henni löggjöf sem heldur, t.d. hvað má vera margra punkta letur til þess að sýna að menn séu að auglýsa pilsner en ekki bjór ef menn ætla að fara þá leið eða hvort og þá hvernig á að meðhöndla umfjöllun um t.d. hvítvín og rauðvín sem og úir og grúir af í blöðum, í venjulegum matreiðslublöðum, í dagblöðum. Það úir og grúir af umfjöllun um áfengi. Ég held því að við þurfum að setjast niður og fara yfir málið og hvernig hægt er að útbúa löggjöf sem heldur. Ég sé það ekki fyrir mér og þess vegna segi ég að ég fylgi banni við áfengisauglýsingum. Leiknar áfengisauglýsingar með íslenskum leikurum eða íslensku fólki í íslensku sjónvarpi finnst mér ekki skemmtileg tilhugsun. Við verðum að útbúa löggjöfina þannig að það sé auðveldara að fara eftir henni en núna er en það kostar vinnu. Menn gera það ekki á öðru hné sér en ég er staðráðinn í því að halda umræðunni uppi.