Heilsugæslustöð í miðbæ Kópavogs

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:04:02 (7706)

2004-05-05 18:04:02# 130. lþ. 110.11 fundur 809. mál: #A heilsugæslustöð í miðbæ Kópavogs# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:04]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Suðvest., Gunnar Birgisson, hefur beint til mín fyrirspurn í þremur liðum varðandi hvernig gangi að flytja heilsugæslustöð í miðbæ Kópavogs í nýtt húsnæði, hvort búið sé að bjóða til kaups eða selja núverandi húsnæði og hvort búið sé að festa nýtt húsnæði.

Því er til að svara að fjárveiting er fyrir hendi til þess að flytja heilsugæslustöðina í nýtt húsnæði en hugur okkar stendur til þess. Unnið hefur verið að undirbúningi að flutningi heilsugæslustöðvarinnar og hefur sú vinna staðið í nokkurn tíma. Sá undirbúningur felst í vinnu forsagnar fyrir gerð og innréttingu hins væntanlega húsnæðis þannig að það henti sem best starfsemi heilsugæslustöðvarinnar nú og í framtíðinni. Auk heilbr.- og trmrn. hefur heilsugæslan í Reykjavík, starfsmenn heilsugæslunnar í Kópavogi og fjmrn. komið að þeim undirbúningi. Stefnt er að því að ljúka undirbúningnum sem fyrst þannig að hægt sé að fara hina hefðbundnu leið og auglýsa eftir húsnæði. Ég vona að ekki líði langur tími áður en búið verður að taka ákvörðun um nýtt húsnæði fyrir stöðina og að hægt verði að flytja í hana innan tíðar því fjármunirnir eru fyrir hendi til verksins.