Heilsugæslustöð í miðbæ Kópavogs

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:07:46 (7708)

2004-05-05 18:07:46# 130. lþ. 110.11 fundur 809. mál: #A heilsugæslustöð í miðbæ Kópavogs# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:07]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er nú svo að ef svör hafa verið þokukennd þá léttir alltaf þokunni einhvern tímann og ég tel að það sé engin þoka í þessu máli. Varðandi stöðu þessara mála almennt á höfuðborgarsvæðinu þá höfum við verið að setja það í forgang hjá okkur að halda áfram uppbyggingunni hér og erum núbúin að opna glæsilega stöð í Salahverfi í Kópavogi. Við erum að semja um byggingu heilsugæslustöðvar í Voga- og Heimahverfi sem mun væntanlega rísa við Glæsibæ og við höfum hug á að halda svo áfram í Hafnarfirði og auglýsa eftir húsnæði þar fyrir nýja heilsugæslustöð.

Það kostar auðvitað fjármuni sem við þurfum að fá viðurkenningu fyrir en við höfum verið með þetta sem forgangsmál hjá okkur vegna þess að það þarf að ljúka þessu verki og dekka höfuðborgarsvæðið í uppbyggingunni eins og margoft hefur komið fram í umræðum um þessi mál en ég tel að þeim hafi þokað verulega áfram á undanförnum tveimur árum.