Ljósmengun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:22:33 (7714)

2004-05-05 18:22:33# 130. lþ. 110.13 fundur 682. mál: #A ljósmengun# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem þetta orð er nefnt á þinginu og þessu máli hreyft. Því er ekki að leyna að sumir hafa spurt mig hvort ég sé að búa til vandamál, hvort ég telji ekki að myrkur sé nægt á Íslandi, a.m.k. að vetri til. Menn telja að við getum talist heppin að hafa ódýra orku til að eyða því myrkri.

Það er hins vegar svo að ljósmengun, eins og menn hafa rætt hana erlendis, varðar a.m.k. þrennt. Í fyrsta lagi geta verið bein óþægindi og ami að því að hafa ljós of björt. Það getur verið ami að því að búa á ljósmiklum svæðum. Því geta fylgt óþægindi að búa við atvinnustarfsemi sem notar hreinlega of mikið af ljósum og ýmislegt getur komið upp í þessu sem varðar samskipti granna.

Í öðru lagi vakna spurningar um orkunýtingu. Erum við að nýta orkuna skynsamlega með því að beina ljósinu út í loftið?

Í þriðja lagi er það fegurð næturhiminsins sem er auðvitað partur af náttúrunni. Það finnum við, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, að á undanförnum áratugum hefur dregið úr fegurð næturhimins á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að fara töluvert út fyrir borgina til að njóta þeirrar dýrðar sem næturhiminninn stjörnum prýddur, alstirndur, er. Þar með höfum við tekið frá börnum okkar tækifæri sem við höfðum sjálf í æsku, að njóta þessa himins. Við eigum líka að hugsa um gesti okkar, ferðamenn sem koma hingað, m.a. til að njóta þeirra kosta sem við höfum á himni, t.d. Japana að leita að norðurljósum og annarra í leit að náttúru sem þeir telja að sé ómenguð.

Þótt við höfum ekki rætt mikið um þetta á þinginu er umræða um þetta í gangi í samfélaginu. Ég leitaði m.a. á netinu og fann þar þrjár merkilegar greinar eftir Birgi Þórðarson, heilbrigðisfulltrúa á Suðurlandi, eftir Sævar Helga Bragason og Þorstein Vilhjálmsson, á vísindavef háskólans, og eftir Ágúst Bjarnason, sem skrifaði fyrir hönd Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Þar er m.a. mynd sem ég get kannski ekki sýnt þingheimi mjög náið. En hún sýnir Ísland úr nokkurri hæð og það sést á samanburði við Evrópumynd fyrir ofan að á nóttunni, þegar mikil ljós eru upp í himininn, getur ljósmengun orðið alvarlegt vandamál á landi okkar innan tíðar.

Fyrirspurn mín er ósköp einfaldlega sú hvort umhvrh. og hennar menn hafi hugleitt þann vanda.