Staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:31:42 (7718)

2004-05-05 18:31:42# 130. lþ. 110.14 fundur 760. mál: #A staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:31]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Sem kunnugt er er Reykjavík mest sveitarfélaga hér á landi. Þess vegna eru ákvarðanir sem teknar eru í Reykjavík um málefni framtíðarinnar hve mikilvægastar af öllum þeim ákvörðunum sem hér eru teknar. Einhver mikilvægasta ákvörðun Reykvíkinga um framtíð sveitarfélagsins felst í samþykkt aðalskipulags Reykjavíkur á hverju kjörtímabili.

Sú regla er við lýði að umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulag sveitarfélaga. Það hefur hæstv. umhvrh. reynt að gera hvað varðar aðalskipulag Reykjavíkur 2001--2024 en þó aðeins að hluta. Þess vegna er ástæða til þess, núna þegar liðin eru þrjú ár af þeim tíma sem hér er um að ræða, að spyrja hæstv. umhvrh. að því hvers vegna hún hafi ekki enn staðfest að fullu aðalskipulag Reykjavíkur 2001--2024 og hvenær hún hyggist staðfesta aðalskipulag Reykjavíkur 2001--2024 að fullu.