Staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:39:11 (7721)

2004-05-05 18:39:11# 130. lþ. 110.14 fundur 760. mál: #A staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Það verður auðvitað að mæta því með skilningi að hún hafi viljað bíða eftir niðurstöðum umræddrar nefndar með lokastaðfestingu sína. Nú hefur sú nefnd runnið sitt skeið án þess að komast að niðurstöðu. Þá stendur upp á ráðherrann að staðfesta að fullu þetta aðalskipulag sem sveitarfélag hefur tekið ákvörðun um, lögmæta ákvörðun og endanlega af sinni hálfu fyrir það tímabil sem um ræðir.

Ég spyr enn: Hvenær hyggst hæstv. umhvrh. staðfesta þetta skipulag? Ef hún gerir það ekki þá verður hún að hafa til þess ákaflega gildar ástæður og koma með þær fram. Það þýðir ekki að geyma þær á skrifstofu í umhvrn. eða annars staðar þar sem almenningur sér ekki til. Umhverfisráðherra er skylt samkvæmt stjórnskipunarreglum að skýra frá ákvörðunum sem hún tekur. Einkum á það við um þessa ákvörðun því að auðvitað er undirskrift ráðherra á aðalskipulagi sveitarfélaga fyrst og fremst til marks um gott samstarf og góðan vilja á milli stjórnsýslustiganna og, eins og ég segi, ef ráðherra gerir það ekki þá er það pólitísk yfirlýsing af hennar hálfu sem ber að skýra bæði fyrir íbúum sveitarfélagsins og öllu landinu. Ég tek það svo, eins og hv. síðasti ræðumaður, að nú standi yfir ákaflega stutt tímabil sem líður á milli þess að nefndin hafi lokið störfum og þess að umhvrh. fái ráðrúm til að staðfesta aðalskipulagið að fullu.