Hreinsun skolps

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:52:08 (7726)

2004-05-05 18:52:08# 130. lþ. 110.15 fundur 804. mál: #A hreinsun skolps# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:52]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi umræða um sorp- og skolpförgun hér á landi er að mínu viti allt of vanþróuð og stefnulaus. Ég og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðum til við afgreiðslu fjárlaga síðast að umhvrh. beitti sér fyrir einhverri landsáætlun varðandi sorp- og skolpmál. Það var því miður ekki samþykkt.

Hér er vakin athygli á því að reglugerð Evrópusambandsins er keyrð yfir íslenskar byggðir, stórar og smáar, þorp og borgir, og jafnvel gengið lengra en þar er krafist. Ég vil þá líka árétta: Eru þessar reglugerðir keyrðar yfir þessi þorp og þessar byggðir án þess að þeim fylgi nokkrir tekjustofnar til að takast á við þessi verkefni? Þetta er eitt dæmi um það hvernig ríkisvaldið íþyngir sveitarfélögunum án þess að styðja þau.