Hreinsun skolps

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:55:44 (7728)

2004-05-05 18:55:44# 130. lþ. 110.15 fundur 804. mál: #A hreinsun skolps# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:55]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Varðandi það sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda Sigurjóns Þórðarsonar tel ég að hér sé ekki um einhverja nýja túlkun að ræða hjá umhvrn. á reglugerðinni, alls ekki. Það er ekki hægt að skilja svar mitt þannig. Það er engin ný túlkun á ferðinni. (SigurjÞ: Skýrari.)

Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni líka það sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni og Jóni Bjarnasyni. Við erum með reglur hér sem taka mið af reglum Evrópusambandsins. Þegar samið var um það fengum við okkar svæði skilgreind meira eða minna sem síður viðkvæman viðtaka þannig að Evrópusambandið gerir engar óeðlilegar kröfur til Íslands, alls ekki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið gerðum við kröfur vegna samkeppnisstöðu okkar í sjávarútvegi gagnvart Norðmönnum inn á Bandaríkjamarkað löngu áður en þessar Evróputilskipanir komu til. Það hafði ekkert með Evrópusambandið að gera þannig að menn töldu að við yrðum að hafa reglur hér sem stæðust skoðun inn á markaðinn í Bandaríkjunum því að við flytjum fisk þangað. Einhver grýla er hér á ferðinni sem segir að Evrópusambandið geri einhverja ægilega kröfu. Það er bara rangt. Þetta hefur heyrst frá mörgum sveitarstjórnarmönnum og þetta er ekki rétt (Gripið fram í.) þannig að við erum ekki að gera einhverjar óeðlilegar kröfur á Íslandi miðað við að við erum að framleiða matvæli og viljum selja þau á viðkvæman markað.

Varðandi það að hér væri ekki landsáætlun í sorpmálum og ekki skolpmálum heldur er það alls ekki rétt. Við erum með landsáætlun varðandi sorpmál, það er nýbúið að kynna hana og hún var unnin samkvæmt lögum. Þar að auki er búin að vera áætlun í gangi varðandi skolpmál í langan tíma og við erum mjög langt komin þó að ýmislegt sé eftir, sérstaklega á landsbyggðinni. Hér er í fullum gangi áætlun og menn eiga að uppfylla hana fyrir ákveðinn tíma. Okkur mun sjálfsagt ekki takast það en ríkið kemur að málum með því að borga um 20% af kostnaði þessarar framkvæmdar.