Veðurathugunarstöðvar

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:58:11 (7729)

2004-05-05 18:58:11# 130. lþ. 110.16 fundur 844. mál: #A veðurathugunarstöðvar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Fátt er okkur Íslendingum hugleiknara en veðrið og oft er það brýnt fyrir okkur að hlusta á veðurlýsingu áður en við leggjum í ferðalög. Veðurfar og veðurlýsing skiptir máli hvað varðar staðsetningu hinna ýmsu atvinnutækifæra svo nokkuð sé nefnt og atvinnulíf okkar er mjög háð veðri. Þess vegna skipta veðurathugunarstöðvar þar sem við fáum upplýsingar um veður vítt og breitt um landið okkur afar miklu máli.

Nú er verið að þrengja fjárhagslega að Veðurstofunni og henni ætlað að spara um 20--30 millj. kr. á þessu ári. Mun það þá að því sem boðað hefur verið koma niður á veðurathugunarstöðvum landsins. Ég vil því spyrja hæstv. umhvrh.:

1. Hve margar mannaðar veðurathugunarstöðvar eru nú utan höfuðborgarsvæðisins?

2. Hvar hafa verið lagðar niður veðurathugunarstöðvar sl. þrjú ár?

3. Hve mörg störf hafa verið lögð niður á veðurathugunarstöðvum utan höfuðborgarsvæðisins á sama tíma? Þetta snýst ekki bara um veðurfarsupplýsingar heldur líka störf á viðkomandi svæðum.

4. Er stefnt að frekari fækkun mannaðra veðurathugunarstöðva og þá hvar?

5. Hvaða veðurupplýsingar tapast við að stöðvarnar eru ómannaðar?

6. Var lagt mat á öryggishlutverk veðurathugunarstöðvarinnar á Hveravöllum áður en tekin var ákvörðun um lokun hennar?

Eins og komið hefur fram í fréttum hefur Veðurstofan sagt upp samningi við veðurathugunarfólkið á Hveravöllum og sá samningur verður ekki endurnýjaður þegar hann rennur út í lok júlí. Í stað þess verður notast við sjálfvirka veðurstöð sem verður ekki endurbætt frá því sem nú er. Veðurathugunarstöðin á Hveravöllum hefur verið mönnuð frá 1965.

Gegn þessari ákvörðun um að loka veðurathugunarstöðinni á Hveravöllum eða gera hana ómannaða hafa komið mótmæli frá héraðsnefnd Austur-Húnvetninga, dagsett 27. apríl sl., þar sem héraðsnefnd lýsir þungum áhyggjum vegna boðunar um lokun mannaðrar veðurathugunarstöðvar á Hveravöllum. Þar er minnt á öryggishlutverk veðurathugunarstöðvarinnar og mikilvægi hennar fyrir veðurfar og veðurlýsingu um hálendið.

Aðalfundur Félags íslenskra veðurfræðinga, haldinn 23. mars 2004, ályktaði einnig, mótmælti lokun veðurathugunarstöðvarinnar á Hveravöllum og benti á að þar hefðu veðurathuganir verið gerðar frá 1965 og upplýsingar þaðan nýttar fyrir veðurspár fyrir hálendið, til að gefa upplýsingar um flugveðurskilyrði á Íslandi og þær eru einnig mikilvægar fyrir alla umferð um hálendið.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. umhvrh. hvernig hún hyggist taka á þessu máli, sérstaklega hvað varðar Hveravelli.