Fjarskiptaþjónusta í Húnaþingi vestra

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:26:18 (7739)

2004-05-05 19:26:18# 130. lþ. 110.18 fundur 769. mál: #A fjarskiptaþjónusta í Húnaþingi vestra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í fyrirspurn hv. þingmanns hefur samgrn. borist undirskriftalisti Vestur-Húnvetninga með ósk um bætt fjarskiptasamband á Laugabakka í Miðfirði þar sem búa um 80 íbúar. Ráðuneytið getur tekið undir þau sjónarmið sem koma fram í erindinu og það styður aukna gagnaflutningaþjónustu en hefur takmörkuð lögbundin úrræði til að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtækin umfram alþjónustu sem kveðið er á um í 19.--22. gr. fjarskiptalaganna. Þessi ákvæði gilda á öllu EES-svæðinu.

Í þessu sambandi má þó benda á að á Íslandi er krafa um 128 kílóbita gagnaflutningasamband. Það er hluti af alþjónustu. Þar er um að ræða ISDN-tengingar og þekkist þessi krafa ekki annars staðar en hefur verið afar mikilvæg fyrir okkur á Íslandi og var mikið framfaraspor.

Loks er að geta þess að samkomulag hefur orðið milli Bændasamtakanna og Landssímans um ISDN Plús samband í sveitum. Þetta samband dugar víða þar sem ADSL er ekki í boði og er mikilvæg aukning á þjónustu. Er mikil ánægja með þá viðbótarþjónustu sem þar er um að ræða. Það er undir fjarskiptafyrirtækjunum sjálfum komið hvar frekari uppbygging þeirra fer fram umfram alþjónustu. Í þessu sambandi er athygli fyrirspyrjanda vakin á 24. gr. fjarskiptalaganna um samtengingu neta og 34. gr. laganna um aðgang að heimtaugum. Þessum ákvæðum er ætlað að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði. Þau gera það að verkum að a.m.k. fjögur fyrirtæki eru í stakk búin að verða við óskum neytenda um gagnaflutningaþjónustu og á það við íbúa á Laugabakka í Miðfirði. Þessum fyrirtækjum hefur verið gert viðvart um óskir Húnvetninga um bætt gagnaflutningasambönd. Samgrn. hefur ekki lagaheimildir til þess að ganga lengra í að hlutast til við fyrirtæki í samkeppni.

Að lokum er rétt að vekja athygli á því að skipaður hefur verið stýrihópur til að hefja undirbúning að gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005--2010. Með henni er stefnt að því að móta heildarstefnu í fjarskiptamálum á Íslandi, til þess m.a. að kortleggja með hvaða hætti stjórnvöld geta komið að frekari uppbyggingu í fjarskiptamálum. Markmið áætlunarinnar er að leggja grunn að framþróun íslensks samfélags með því að bjóða bestu, ódýrustu og öruggustu rafrænu samskipti með beitingu fjarskipta- og upplýsingatækni. Þetta verður m.a. gert með hliðsjón af nýrri stefnumótun forsrn. um upplýsingasamfélagið sem ber yfirskriftina Auðlindir í allra þágu -- stefna um upplýsingasamfélagið 2007. Hún hefur verið kynnt og liggur fyrir. Stýrihópnum sem vinnur á vegum samgrn. er m.a. ætlað að skoða og gera tillögur um stefnu stjórnvalda er varða gagnaflutningatengingar á landsbyggðinni, farsímasamband á þjóðvegum og fleira. Stýrihópnum er ætlað að skila tillögu að nýrri fjarskiptaáætlun eigi síðar en 1. september 2004. Miðað er við að áætlunin verði lögð fyrir Alþingi næsta haust. Lögð er áhersla á að áhugasamir hafi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri til hópsins við gerð áætlunarinnar. Rétt er því að benda á veftorg sem hefur verið sett upp í því skyni og er það aðgengilegt frá vef samgrn.