Fjarskiptaþjónusta í Húnaþingi vestra

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:31:30 (7741)

2004-05-05 19:31:30# 130. lþ. 110.18 fundur 769. mál: #A fjarskiptaþjónusta í Húnaþingi vestra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:31]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Hann virðist standa svo nákvæmlega fastur í því fari að þessi fjarskipti séu komin svo rækilega út á einkavæðingarmarkaðinn og samkeppnismarkaðinn að ekki sé hægt að koma þar að pólitískum vilja. Ég held að það sé einfaldlega rangt mat hjá hæstv. ráðherra.

Ég vil benda á að á Laugabakka er símstöð og tiltölulega lítið mál að koma þessari tengingu á. Svo er víðar. Er nokkur sanngirni í því að bæjum sé svona mismunað? Ísafjarðarbær fær þessa tengingu, ADSL-tengingu, en Suðureyri, Þingeyri og Flateyri sem eru bara með 300--400 íbúa en eru samt hluti af sama bæjarfélagi fá hana ekki vegna þessarar þröngu skilgreiningar sem beitt er. Hólmavík, rétt undir þessum mörkum sem unnið hefur verið eftir, fær ekki þessa ADSL-tengingu. Landssíminn skilar samt 2--3 milljörðum kr. í arð til ríkisins en upplýsingar sem ég fæ líka eru að nánast ekkert hefur gerst í uppbyggingu á fjarskiptakerfi og GSM-símanum í dreifbýlinu síðustu árin, allra síðustu missirin. Þetta er orðið samkeppnismál og í samkeppnismálum gera menn ekki neitt nema það skili þeim arði sem vænst er.

Ég skora á hæstv. samgrh. sem ég veit að er um margt hlynntur því að efla og styrkja aðstöðu í byggðunum að beita bara pólitísku afli sínu til að þessi fjarskiptamál gagnvart litlum þéttbýlisstöðum vítt og breitt um landið verði tekin pólitískum ákveðnum tökum og þau bætt.