Fjarskiptaþjónusta í Húnaþingi vestra

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:33:51 (7742)

2004-05-05 19:33:51# 130. lþ. 110.18 fundur 769. mál: #A fjarskiptaþjónusta í Húnaþingi vestra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Það var slæmt að hv. þm. Jón Bjarnason var ekki kominn í þingið þegar félagi hans Steingrímur J. Sigfússon var samgrh. Ekki urðu framfarirnar miklar á þeim tíma. Hv. þm. breiðir úr sér með yfirlýsingum um að það skorti eitthvað á vilja minn til að styrkja hinar dreifðu byggðir. Það er mjög gott og auðvelt að tala svona eins og hv. þm. gerir.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson sagði að forstjóri Símans hefði auglýst eftir pólitískum skilaboðum frá samgrh. Ég hef ekki heyrt (Gripið fram í.) þessar óskir. Pólitísku skilaboðin eru alveg skýr af minni hálfu. Við leggjum á það áherslu að sem hröðust uppbygging eigi sér stað umfram það sem þegar hefur orðið, bæði hvað varðar gagnaflutninga og farsímaþjónustuna. Auðvitað er samt um það að ræða að þarna eru fyrirtæki á samkeppnismarkaði sem eru undir þá sök seld að þurfa að vinna í samræmi við lög. Stjórnvöld hafa ekki boðvald yfir þessum fyrirtækjum, það liggur alveg ljóst fyrir.

Hin pólitíska lína er alveg klár af minni hálfu. Við leggjum áherslu á að hraða uppbyggingu upplýsingasamfélagsins og þess vegna höfum við unnið með þeim hætti að á Íslandi er útbreiðsla mest og mest notkun á internetinu og hér er mikil notkun farsíma þannig að staðan hjá okkur er góð. Þótt víða sé verk að vinna er staðan býsna góð og við megum ekki gleyma því. Við viljum samt hraðari uppbyggingu og að því leyti get ég tekið undir það sem kom fram hjá fyrirspyrjanda og hv. þingmanni sem hér talaði.