Framlög til eignarhaldsfélaga

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:36:40 (7743)

2004-05-05 19:36:40# 130. lþ. 110.20 fundur 956. mál: #A framlög til eignarhaldsfélaga# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:36]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum var samþykkt þáltill. um stefnu í byggðamálum og í henni fólst að ákveðið var að leggja 300 millj. kr. á ári í fjögur ár til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Stofnuð voru í því skyni eignarhaldsfélög fyrir atbeina Byggðastofnunar, auk þess sem stofnunin keypti sig inn í starfandi eignarhaldsfélag á Suðurnesjum í sama skyni. Féð rann til þessara eignarhaldsfélaga og á móti því kom fé frá aðilum á starfssvæði hvers félags og það var síðan notað til að kaupa hlutafé í fyrirtækjum á starfssvæði einstakra eignarhaldsfélaga til atvinnuuppbyggingar á því svæði. Þessu var hætt árið 2002 og framlagi þess árs sem þá var ákveðið til eignarhaldsfélaga var breytt og nýtt til annarra verkefna.

Í fjárlögum þessa árs og fjáraukalögum síðasta árs er samanlagt ákveðið að veita 150 millj. kr. til kaupa á hlutafé í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja. Það er eitt af þeim eignarhaldsfélögum sem ég gat um áðan að hefðu verið notuð til þess að koma stuðningi ríkissjóðs út til landsbyggðarinnar til atvinnuuppbyggingar þar. Það vekur upp þá spurningu hvort áhugi sé á því að fara á nýjan leik sömu leið og áður var farin og setja úr ríkissjóði fé til atvinnuuppbyggingar um landið, ekki bara á starfssvæði Eignarhaldsfélags Suðurnesja heldur líka annars staðar á landsbyggðinni, t.d. Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi. Af þessu tilefni er borin fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. iðnrh., með leyfi forseta:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því, í framhaldi af kaupum ríkissjóðs á hlutafé í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja að andvirði 150 millj. kr., að ríkissjóður verji fé til kaupa á hlutafé í eignarhaldsfélögum sem Byggðastofnun á hlut í fyrir hönd ríkissjóðs?